Við sýnum samfélagslega ábyrgð í verki með því að gera viðskiptavinum okkar gagn og sinna hlutverki okkar sem fjármálafyrirtæki af kostgæfni og ábyrgð. Við tökum virkan þátt í samfélaginu sem við störfum í og uppbyggingu þess.
Gerum gagn
Fjármálafyrirtæki eru ein af grunnstoðum samfélagsins og hlutverk okkar er að styðja viðskiptavini okkar, bæði einstaklinga og fyrirtæki, í að ná sínum markmiðum.
Við ákvarðanatöku horfum við til fjölmargra þátta í senn og metum þá margvíslegu hagsmuni sem undir liggja. Þar horfum við ekki síður til langs tíma en skamms. Við leggjum mat á þann ávinning og þá áhættu sem ákvarðanir og lánveitingar geta falið í sér og leggjum áherslu á sanngirni með hagsmuni viðskiptavina, starfsfólks, hluthafa og samfélagsins alls að leiðarljósi.
Hlutverk okkar er að styðja viðskiptavini okkar, bæði einstaklinga og fyrirtæki, í að ná sínum markmiðum.
Við stundum ábyrga stjórnarhætti og höfum m.a. sett okkur stefnu um upplýsingagjöf, upplýsingaöryggi, peningaþvætti, jafnréttismál og siðareglur. Við leitumst ávallt við að gera betur í dag en í gær í allri okkar starfsemi með þarfir viðskiptavinarins að leiðarljósi.
Þannig gerum við gagn í samfélaginu.
Mannauður
Mannauðurinn er kjarninn í starfsemi Arion banka og hér starfar þétt liðsheild öflugs starsfólks. Við kappkostum að búa vel að fólkinu okkar og vinnum markvisst að því að skapa hvetjandi, jákvætt og árangursdrifið starfsumhverfi þar sem við getum öll vaxið í starfi og eflt kunnáttu okkar.
Við leggjum áherslu á öfluga forystu og góða stjórnun og vinnum markvisst að því að efla leiðtogafærni stjórnenda. Við hvetjum til starfsþróunar og bjóðum upp á metnaðarfulla fræðsluáætlun sem veitir öllum starfsmönnum tækifæri til að auka þekkingu sína og færni. Leitast er við að veita starfsmönnum tækifæri til að vaxa til meiri ábyrgðar og stjórnunarstarfa innan bankans eða veita tilfærslu í önnur störf og verkefni.
Við hvetjum til starfsþróunar og bjóðum upp á metnaðarfulla fræðsluáætlun sem veitir öllum starfsmönnum tækifæri til að auka þekkingu sína og færni.
Við framkvæmum vinnustaðagreiningar á hverju ári með það að markmiði að efla starfsumhverfið og starfsánægju. Mikilvægt er að gott jafnvægi ríki á milli vinnu og einkalífs og er starfsfólk hvatt með ýmsum hætti til að rækta eigin heilsu. Við líðum hvorki einelti eða kynferðislega áreitni né önnur óæskileg samskipti. Það er á ábyrgð okkar allra að koma í veg fyrir slíka hegðun á vinnustaðnum.
Við höfum skýra sýn í jafnréttismálum. Stefna bankans er að hámarka mannauðinn með því að tryggja jöfn tækifæri og kjör starfsfólks af báðum kynjum og vera eftirsóknarverður vinnustaður fyrir konur jafnt sem karla. Markmið okkar er að allt starfsfólk fái notið sín án tillits til kynferðis. Í bankanum er starfandi jafnréttisnefnd og við höfum mótað jafnréttisáætlun. Arion banki er aðili að Jafnréttissáttmála UN Women og UN Global Compact sem er alþjóðlegt viðmið sem fyrirtæki geta haft að leiðarljósi, bæði til að efla konur innan fyrirtækja og sömuleiðis auka áhrif þeirra í samfélaginu.
Fjármálalæsi
Hröð þróun í fjármálaþjónustu og fjölbreyttir valkostir geta gert fjármálin flókin og erfið viðfangs en fjármálalæsi eykur skilning fólks á eigin fjármálum og þeim valkostum sem í boði eru. Fjármálalæsi nær til ýmissa þátta, allt frá því að fylgjast með heimilisfjármálunum, gera áætlanir og setja sér markmið, til stærri ákvarðana eins og kaupa á húsnæði og vali á lífeyrissparnaði. Stórar ákvarðanir í fjármálum geta haft mikil áhrif á fjárhagslega stöðu fólks til framtíðar en með bættu fjármálalæsi tekur fólk betri ákvarðanir byggðar á skilningi og þekkingu. Með bættu fjármálalæsi nær fólk þannig betri tökum á eigin fjármálum og leggur grunn að fjárhagslegum stöðugleika sínum.
Viðskiptavinir okkar hafa greiðan aðgang að upplýsingum um eigin fjármál og við bjóðum upp á heimilisbókhald sem eykur skilning og yfirsýn yfir fjármál heimilisins. Við bjóðum upp á námskeið og fræðslufundi um hinar ýmsu hliðar fjármála og höfum á að skipa sérmenntuðum fjármálaráðgjöfum sem veita vandaða ráðgjöf. Þannig hjálpum við viðskiptavinum okkar að skilja fjölbreytta valkosti fjármálaþjónustu betur og taka bestu ákvörðunina fyrir sig.
Með bættu fjármálalæsi tekur fólk betri ákvarðanir byggðar á skilningi og þekkingu.
Það er mikilvægt að byrja snemma og því leggjum við áherslu á fjármálafræðslu ungmenna og hefur fjöldi barna og unglinga sótt fjármálanámskeið bankans um allt land. Við tökum einnig virkan þátt í umræðu um fjármál og efnahagslíf í landinu og stuðlum að opinni og upplýstri umræðu með því að bjóða upp á fjölbreytta fundi og ráðstefnur um fjármál og efnahagslíf.
- Greiningardeild Arion banka hélt 6 morgunfundi árið 2014 sem yfir 1.000 manns sóttu
- Alls voru haldnir 12 fræðslufundir víða um land þar sem Jón Jónsson fræddi um 2.500 unglinga á aldrinum 14-16 ára um fjármál
- Yfir 300 viðskiptavinir nýttu sér hraðþjónustnámskeið sem haldin voru í útibúum bankans bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni
- Yfir 200 manns mættu á fræðslufundi bankans sem haldnir voru um aðgerðir ríkisstjórnarinnar í tengslum við leiðréttingu á verðtryggðum fasteignalánum
- Alls sóttu yfir 3.000 manns fræðslufundi og ráðstefnur á vegum bankans á árinu 2014
Arion banki er aðalbakhjarl Stofnunar um fjármálalæsi sem beitir sér fyrir bættu fjármálalæsi í samfélaginu.
Nýsköpun
Með öflugri nýsköpun geta hugmyndir og þekking orðið að nýrri tækni, nýjum aðferðum eða jafnvel nýjum iðngreinum, hvort sem er innan þroskaðra fyrirtækja eða í frumkvöðlaumhverfinu. Öll viðleitni einstaklinga til nýsköpunar, uppbyggingar og nýrrar verðmætasköpunar er mikilvæg og við tökum slíka viðleitni alvarlega og íhugum vel hvort og hvernig við getum orðið að liði.
Við viljum skapa frjóan jarðveg og jákvætt og örvandi umhverfi fyrir sprotafyrirtæki á Íslandi og höfum staðið að ýmsum verkefnum til að styðja við nýsköpun í landinu. Við styðjum fyrirtæki til nýsköpunar með aðgengi að fjármagni og ráðgjöf og hjálpum þeim þannig að ná markmiðum sínum til framtíðar.
Við viljum skapa frjóan jarðveg og jákvætt og örvandi umhverfi fyrir sprotafyrirtæki á Íslandi og höfum staðið að ýmsum verkefnum til að styðja við nýsköpun í landinu.
Startup Reykjavík er stærsta nýsköpunarverkefni Arion banka og markmið þess er að skapa umhverfi þar sem frumkvöðlar njóta ráðgjafar og leiðsagnar reynslumikilla aðila í þeim tilgangi að gera hugmyndir sínar að veruleika og skapa þannig ný viðskiptatækifæri. Þátttökuteymum er boðið fjármagn í formi hlutafjár, þjálfun og vinnuaðstaða þar sem frumkvöðlar hafa tækifæri til að hittast. Teymin fá einnig tækifæri til að kynna viðskiptahugmyndir sínar fyrir innlendum og erlendum aðilum bæði hvað varðar þróun hugmyndanna sem og mögulega framtíðarfjármögnun. Startup Reykjavík er samstarfsverkefni Arion banka og Klak Innovit.
Startup Reykjavík er fyrsta verkefni sinnar tegundar hér á landi en verkefni sem þessi hafa notið mikilla vinsælda og virðingar víðsvegar um heim hjá fjárfestum og fyrirtækjum sem eru að stíga sín fyrstu skref. Nú þegar hafa 30 ung fyrirtæki farið í gegnum Startup Reykjavík og munu 10 til viðbótar taka þátt sumarið 2015.
Startup Energy Reykjavík (SER) er viðskiptasmiðja sem byggir á sömu hugmyndafræði og Startup Reykjavík en þar er einblínt á verkefni og fyrirtæki í orkutengdum iðnaði og þjónustu. SER var keyrt í fyrsta sinn vorið 2014 en þá tóku 7 fyrirtæki þátt og vorið 2015 munu önnur 7 bætast í hópinn. SER er samstarfsverkefni Arion banka, Landsvirkjunar, GEORG, Nýsköpunarmiðstöðvar, Klak Innovit og Iceland Geothermal.
Arion banki er í samstarfi við Eyri Invest um rekstur sprota- og vaxtasjóðsins Eyrir Sprotar slhf. Eyrir Invest og Arion banki eru stærstu hluthafar sjóðsins.
Umhverfismál
Arion banki hefur það að leiðarljósi að sýna umhverfinu umhyggju og virðingu. Við höfum einsett okkur að fara sparlega með orku í starfseminni, nýta umhverfisvænar lausnir við prentun og stefnum að aukinni hlutdeild pappírslausra viðskipta. Við flokkum úrgang frá bankanum eins og hægt er hverju sinni og veljum umhverfisvænar vörur og þjónustu við innkaup þar sem því verður við komið.
Við höfum sett samgöngustefnu sem stuðlar að því að starfsfólk noti vistvænan og hagkvæman ferðamáta. Þannig leggur Arion banki sitt af mörkum til að bæta umhverfið og heilsu starfsfólks bankans. Við viljum sýna gott fordæmi og efla vitund fólks um vistvænar samgöngur.
Samfélagið
Við styðjum við fjölmörg félagasamtök í samfélaginu sem við störfum í. Arion banki er bakhjarl HSÍ, Íþróttasambands fatlaðra og Hörpu tónlistarhúss og styður að auki veglega við góðgerðamál eins og Krabbameinsfélag Íslands og Mæðrastyrksnefnd. Á landsbyggðinni styðja útibúin við fjölbreytt íþrótta- og menningastarf í heimabyggð sinni.