Hjá Arion banka er lögð áhersla á að skapa starfsumhverfi sem einkennist af fagmennsku, metnaði, framsækni og góðri samvinnu á milli sviða, starfsstöðva og einstaklinga. Starfsfólkið er hjartað í starfsemi Arion banka og kappkostar bankinn að búa vel að starfsfólki sínu.
Fjölbreyttur hópur starfsfólks
Hjá Arion banka starfar fjölbreyttur hópur fólks sem hefur víðtæka reynslu af ýmsum sviðum samfélagsins og margvíslega menntun.
Í upphafi árs 2014 voru 969 starfsmenn hjá bankanum í 911 stöðugildum. Alls voru 911 starfsmenn í 865 stöðugildum í lok árs 2014 hjá bankanum, þar af 65% konur og 35% karlar. Nýráðningar voru 46 á árinu, þar af voru 45% konur og 55% karlar. Starfsmannavelta var 12%.
Kynjaskipting á meðal stjórnenda bankans er fremur jöfn eins og sést á línuritinu hér fyrir neðan.
Háskólamenntuðum starfsmönnum innan bankans hefur fjölgað undanfarin ár og er svo komið að hlutfall þeirra starfsmanna sem eru með háskólapróf er komið í 59%.
Aldursdreifing er fremur jöfn. Meðalaldur starfsfólks Arion banka er 42 ár. Starfsmenn hætta við 67 ára aldur hjá bankanum. Fjölmargir starfsmenn hafa sýnt bankanum og forverum hans mikla tryggð. Dæmi eru um að starfsmenn séu með meira en 40 ára starfsaldur. Meðalstarfsaldur er 10,4 ár.
Á árinu 2014 fækkaði um 46 stöðugildi hjá bankanum, mest á viðskiptabankasviði og rekstrarsviði. Fækkunin stafar fyrst og fremst af markvissri nýtingu upplýsingatækni, útvistun verkefna og fækkun starfsstöðva. Einnig sér fyrir endann á ýmsum úrvinnslumálum svo sem endurútreikningi gengistryggðra lána.
Á árinu var bakvinnsla útibúa sameinuð þjónustuveri bankans í nýrri, öflugri þjónustueiningu undir heitinu þjónustukjarni. Breytingarnar munu styrkja þjónustu við útibú og viðskiptavini bankans auk þess að auka skilvirkni í rekstri.
Bankinn yfirtók hluta af starfsemi þrotabús SPRON (Dróma hf.) í upphafi ársins og tók þar við nær öllum einstaklingslánum ásamt því að ráða hluta starfsmanna Dróma til starfa.
Fræðsla og starfsþróun
Rík áhersla er á starfsþróun innan bankans, m.a. með markvissri fræðslu starfsfólks og góðu framboði námskeiða. Lögð er áhersla á að starfsfólk fái tækifæri til að efla faglega og persónulega hæfni sína auk þess sem krafa er gerð um að starfsfólk hafi haldgóða þekkingu á þeim lögum og reglum sem lúta að hlutverki þess. Við lítum svo á að menntun sé jafnt á ábyrgð stjórnenda og starfsfólksins sjálfs.
Lögð er áhersla á að starfsfólk fái tækifæri til að efla faglega og persónulega hæfni sína auk þess sem krafa er gerð um að starfsfólk hafi haldgóða þekkingu á þeim lögum og reglum sem lúta að hlutverki þess.
- Stjórnendafræðsla var efld á árinu 2014 og verður framhaldið á árinu 2015.
- Á árinu 2014 stunduðu 11 starfsmenn nám til löggildingar í verðbréfamiðlun, en 87 starfsmenn bankans hafa þegar lokið umræddu námi.
- Á árinu 2012 var fyrst boðið upp á nám á vegum fjármálafyrirtækja á Íslandi fyrir fjármálaráðgjafa einstaklinga, en náminu er ætlað að efla þjónustu við viðskiptavini. Í dag starfa 36 vottaðir fjármálaráðgjafar hjá Arion banka en 19 til viðbótar munu klára námið vorið 2015.
- Meðalkostnaður vegna aðkeyptrar fræðslu, ráðstefna og endurmenntunar starfsmanna var 102.000 krónur á starfsmann árið 2014.
Mannauðsstefna
Hjá Arion banka starfar þétt liðsheild öflugs starfsfólks. Við erum stolt af vinnustað okkar og vinnum stöðugt að því að bæta árangur okkar og þjónustu við viðskiptavini. Arion banki er tengslabanki og við leggjum okkur fram um að byggja upp sterk tengsl við viðskiptavini og samstarfsfólk okkar til langs tíma. Við vinnum af fagmennsku og leitumst við að hugsa í lausnum. Við sýnum sveigjanleika, framsækni og áræðni í öllum okkar verkum.
Kynntu þér mannauðsstefnu Arion banka
Jafnréttismál
Arion banki hefur sett sér skýra stefnu um að tryggja jöfn tækifæri og kjör starfsfólks af báðum kynjum. Hvers kyns mismunun á grundvelli kynferðis er í andstöðu við jafnréttisstefnu bankans sem og jafnréttislög. Bankastjóri ber ábyrgð á framgangi jafnréttismála innan bankans en í hans umboði starfar jafnréttisnefnd skipuð fulltrúum starfsfólks. Nefndin hefur umsjón með endurskoðun jafnréttisstefnu og gerð aðgerðaáætlunar í jafnréttismálum og fylgir markmiðum hennar eftir. Framkvæmd aðgerða er á ábyrgð starfsmannaþjónustu bankans í samvinnu við stjórnendur. Verkefnum jafnréttisnefndar er skipt upp í átta efnisflokka: Launajafnrétti, jafnrétti í nefndum, laus störf, vinnuhópar, starfsþjálfun og endurmenntun, jafnréttisfræðsla, samræming fjölskyldu og vinnu, einelti og kynbundin/kynferðisleg áreitni.
Bankastjóri ber ábyrgð á framgangi jafnréttismála innan bankans en í hans umboði starfar jafnréttisnefnd skipuð fulltrúum starfsfólks.
Aðgerðaáætlun í jafnréttismálum var samþykkt af framkvæmdastjórn bankans 2013 en markmið hennar er að stuðla að jafnri stöðu og jöfnum tækifærum starfsfólks óháð kyni. Þetta á m.a. við um rétt til starfa, kjara, starfsþróunar og setu í nefndum og starfshópum. Aðgerðaáætlunin er endurskoðuð á tveggja ára fresti.
Á vormánuðum 2014 skrifaði bankastjóri undir Jafnréttissáttmála UN Women og UN Global Compact fyrir hönd banks. Þá var einnig sótt um jafnlaunavottun á árinu og hefur undirbúningsvinna vegna hennar verið umtalsverð. Stefnt er að því að vottun fáist á árinu 2015.