Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poor’s (S&P) gaf bankanum lánshæfismatið BB+ með jákvæðum horfum á árinu. Bankinn fékk einnig staðfestan alþjóðlegan EMTN-skuldabréfaramma á vormánuðum sem einfaldar aðgang bankans að erlendum lánsfjármörkuðum. Innanlands hóf Arion banki útgáfu víxla í október auk reglubundinnar útgáfu sértryggðra skuldabréfa.
Fjármögnun
Stærstur hluti fjármögnunar bankans er í formi innlána frá viðskiptavinum og er ekki gert ráð fyrir að þar verði breyting á í framtíðinni. Sértryggð skuldabréf skipa mikilvægan sess í fjármögnun bankans, en þau eru notuð til fjármögnunar á húsnæðislánum sem bankinn veitir viðskiptavinum.
Á síðustu misserum hefur bankinn stigið frekari skref til að auka fjölbreytni fjármögnunarkosta með skuldabréfaútgáfu í Noregi auk þess að hefja útgáfu víxla á innlendum markaði. Frekari skref verða tekin til að fjölga fjármögnunarkostum árið 2015 og verður helsta áherslan á að auka við óveðtryggða langtímafjármögnun auk reglubundinnar útgáfu sértryggðra skuldabréfa og víxla innanlands.
Útgáfa á víxlum
Arion banki fékk á árinu staðfesta grunnlýsingu hjá Fjármálaeftirlitinu fyrir útgáfu skuldabréfa á innlendum markaði. Lýsingin veitir bankanum heimild til útgáfu víxla og skuldabréfa fyrir allt að 25 milljarða króna. Í október 2014 gaf bankinn í fyrsta skipti út víxla sem auka enn frekar fjölbreytni í fjármögnun bankans. Alls voru gefnir út víxlar að fjárhæð 3,2 milljarðar íslenskra króna á árinu 2014. Víxlarnir eru skráðir á Nasdaq OMX á Íslandi.
EMTN útgáfurammi
Arion banki fékk á árinu 2014 staðfesta EMTN (Euro Medium Term Note) grunnlýsingu vegna útgáfu skuldabréfa í erlendri mynt. Skuldabréfaramminn gefur Arion banka færi á að gefa út skuldabréf á alþjóðamarkaði að jafnvirði allt að einum milljarði evra með skömmum fyrirvara. Í byrjun marsmánaðar 2015 gaf bankinn út skuldabréf í evrum til breiðs hóps fjárfesta. Skuldabréfið hljóðaði uppá 300 milljónir evra eða um 45 milljarða íslenskra króna og er stærsta erlenda skuldabréfa útgáfa íslensks banka um árabil.
Standard & Poor´s breytir horfum á lánshæfiseinkunn úr stöðugum í jákvæðar
Arion banki fékk lánshæfismat frá Standard & Poor’s (S&P) í upphafi árs. Í október 2014 staðfesti S&P lánshæfiseinkunn Arion banka, BB+, og breytti horfum úr stöðugum í jákvæðar. Breytingin var gerð í kjölfar þess að S&P hafði uppfært efnahagslega áhættuþætti fyrir Ísland úr stöðugum í jákvæða auk þess sem matsfyrirtækið telur líklegt að draga muni enn frekar úr efnahagslegu ójafnvægi hér á landi. S&P telur þannig horfur fyrir fjármálamarkaðinn á Íslandi jákvæðar auk þess sem líklegt sé að gæði eigna í fjármálakerfinu haldi áfram að aukast.
Lánshæfiseinkunn frá alþjóðlegu matsfyrirtæki bætir aðgengi bankans að erlendum fjármálamörkuðum, sem er mikilvægt.
Bankinn telur einkunn S&P vera góða þegar tekið er mið af mati matsfyrirtækisins á lánshæfi íslenska ríkisins sem er BBB-. Lánshæfis-einkunn frá alþjóðlegu matsfyrirtæki bætir aðgengi bankans að erlendum fjármálamörkuðum, sem er mikilvægt. Jafnframt er ljóst að bætt aðgengi Arion banka og annarra íslenskra fjármálafyrirtækja að alþjóðlegum lánsfjármörkuðum er ein af forsendum þess að hægt verði að aflétta gjaldeyrishöftum og það er einnig í því ljósi sem bankinn telur þetta jákvætt skref.
Útgáfa sértryggðra skuldabréfa og skráning samningsbundinna sértryggðra skuldabréfa hjá NASDAQ OMX á Íslandi
Í árslok 2014 voru tekin til viðskipta á NASDAQ OMX á Íslandi samningsbundin sértryggð skuldabréf Arion banka. Höfuðstóll skuldabréfanna er um 100 milljarðar króna. Skuldabréfin voru upprunalega gefin út af Kaupþingi banka hf. en síðar yfirtekin af Arion banka hf. Skuldabréfin eru verðtryggð með föstum vöxtum. Með skráningunni hefur Arion banki fest sig í sessi sem helsti útgefandi sértryggðra skuldabréfa, en í heild nemur útgáfa sértryggðra skuldabréfa bankans um 129 milljörðum króna.
Með skráningunni hefur Arion banki fest sig í sessi sem helsti útgefandi sértryggðra skuldabréfa.
Arion banki hélt áfram útgáfu sinni á sértryggðum skuldabréfum sem tryggð eru samkvæmt lögum nr. 11/2008 um sértryggð skuldabréf. Í desember voru gefnir út tveir nýir flokkar sértryggðra skuldabréfa. Flokkarnir voru báðir verðtryggðir og með lokagjalddaga 2021 og 2029. Bankinn gaf samtals út sértryggð skuldabréf fyrir 16,5 milljarða króna á árinu 2014. Áætlanir gera ráð fyrir að útgáfa sértryggðra skuldabréfa verði um 10-20 milljarðar króna á ári næstu árin til að fjármagna húsnæðislán sem bankinn veitir viðskiptavinum sínum. Bankinn hefur um árabil verið í forystu á íslenskum húsnæðislánamarkaði með nýjungum og hagstæðum kjörum á íbúðalánum.
Bankinn stefnir að því að auka enn frekar fjölbreytni í fjármögnun sinni með áframhaldandi útgáfu sértryggðra skuldabréfa auk annarra fjármögnunarkosta hér á landi og erlendis.
Lausafjárstaða og lausafjáráhætta
Bankinn fjármagnar sig að hluta til með innlánum frá einstaklingum, fyrirtækjum og lífeyrissjóðum. Þann 1. desember 2013 tóku gildi nýjar reglur Seðlabanka Íslands um lausafjárhlutfall sem byggja á sömu forsendum og þær lausafjárkröfur sem verða gerðar víðast hvar í heiminum frá og með árinu 2015 samkvæmt Basel III staðlinum. Á árinu 2014 kváðu reglurnar á um að lausafjárhlutfall (e. liquidity coverage ratio) íslenskra fjármálafyrirtækja skyldi að lágmarki vera 70% og sama hlutfall einskorðað við stöðuna í erlendum gjaldmiðlum skyldi vera 100%. Á árinu 2015 gilda ný viðmið fyrir þessi hlutföll, 80% og 100% í sömu röð.
Í árslok var lausafjárhlutfall bankans 174% og fyrir erlenda gjaldmiðla var hlutfallið 254%, sem er vel yfir þeim mörkum sem reglur Seðlabankans kveða á um.
Eitt af meginmarkmiðum Arion banka er að viðhalda sterku lausafjárhlutfalli. Í árslok var lausafjárhlutfall bankans 174% og fyrir erlenda gjaldmiðla var hlutfallið 254%, sem er vel yfir þeim mörkum sem reglur Seðlabankans kveða á um. Íslenskar lausafjárreglur taka mið af evrópskum reglum og eiga að taka á áhættuþáttum sem snerta hvikleika innlána og tímamisvægi eigna og skulda viðskiptabanka. Einnig standa íslenskir bankar frammi fyrir sérstökum óvissuþáttum vegna mögulegs útflæðis í tengslum við losun fjármagnshafta. Þrátt fyrir framangreinda óvissuþætti er Arion banki með sterkri lausafjárstöðu vel í stakk búinn til að takast á við aðstæður sem kynnu að skapast við afléttingu gjaldeyrishafta.