Afkoma
Hagnaður samstæðu Arion banka nam 28.594 m.kr. árið 2014 samanborið við 12.657 m.kr. árið 2013. Aukinn hagnaður skýrist einkum af hreinum fjármunatekjum og afkomu af aflagðri starfsemi en skráning og sala á eignarhlut bankans í HB Granda hf. á fyrri hluta ársins hafði umtalsverð áhrif á þessa liði. Jafnframt jukust hreinar þóknanatekjur um 19% milli ára.Rekstrartekjur
Rekstrartekjur hækka talsvert á milli ára eða um 9.642 milljónir króna en þær námu 53.990 milljónum króna á árinu. Hækkunin er einkum tilkomin vegna 3.037 milljóna króna hækkunar á hreinum fjármunatekjum, 2.578 milljóna króna viðsnúningi á hreinum gengishagnaði og 2.086 milljóna króna hækkunar á hreinum þóknanatekjum.
Hreinar vaxtatekjur námu 24.220 milljónum króna á árinu og hækka um 2% milli ára. Vaxtamunur af meðalstöðu vaxtaberandi eigna nam 2,8% á árinu en var 2,9% á árinu 2013. Þrátt fyrir lægri verðbólgu, sem áhrif hefur á verðtryggðar eignir, er vaxtamunur svipaður og skýrist það einkum af lægri fjármagnskostnaði með virkari lausafjárstýringu.
Hreinn gengishagnaður nam 813 milljónum króna á árinu samanborið við 1.766 milljóna króna gengistap árið 2013. Hreinn gjaldeyrisójöfnuður samstæðunnar nam 18,9 milljörðum króna í lok ársins sem felur í sér að gengissveiflur hafa nokkur áhrif á rekstrartekjur. Hreinn gjaldeyrisójöfnuður nam 31,6 milljörðum króna í árslok 2014 en bankinn vann á árinu markvisst að lækkun á hreinni gjaldeyrisstöðu sinni. Gjaldeyrisójöfnuður móðurfélagsins er langt innan þeirra 15% marka sem Seðlabankinn setur.
Rekstrarkostnaður
Rekstrarkostnaður ársins nam samtals 27.042 milljónum króna. Kostnaðarhlutfall lækkar í 50,1% en var 57,3% árið 2013. Kostnaður sem hlutfall af eignum nam 2,9% en var 2,8% árið 2013.
Laun og launatengd gjöld námu 13.979 milljónum króna og hækka um 3% á milli ára. Hluti hækkunarinnar kemur til af samningsbundnum hækkunum upp á 2,8%, hærri kostnaði vegna kaupaukakerfis og einskiptiskostnaði vegna fækkunar starfsmanna. Stöðugildi samstæðunnar voru að meðaltali 1.128 á árinu 2014 samanborið við 1.159 árið 2013.
Annar rekstrarkostnaður nam 13.063 milljónum króna og hækkar um 10% milli ára. Umtalsverður einskiptiskostnaður vegna niðurfærslu eigna og sekta frá Samkeppniseftirlitinu skýrir þessa hækkun frá fyrra ári að mestu.
Hrein virðisbreyting
Hrein virðisbreyting á árinu nam 2.135 milljónum króna og skiptist í stórum dráttum í þrennt. Í fyrsta lagi er um að ræða hreina virðishækkun á lánum til fyrirtækja upp á 2.300 milljónir króna. Í öðru lagi er hrein virðisrýrnun vegna útlána til einstaklinga um 851 milljón króna. Í þriðja lagi er hrein virðishækkun annarra eigna 686 milljónir króna.Skattar
Tekjuskattur nam 4.679 milljónum króna samanborið við 3.143 milljónir króna árið 2013. Tekjuskattur, eins og hann er settur fram í ársreikningi, samanstendur af 20% tekjuskatti af hagnaði og 6% sérstökum fjársýsluskatti sem lagður er á hagnað fjármálafyrirtækja umfram einn milljarð króna. Virkt tekjuskattshlutfall er 16,1% á árinu 2014 samanborið við 17,2% árið 2013. Bankaskattur nam 2.643 milljónum króna samanborið við 2.872 milljónir króna árið 2013. Tekju- og bankaskattar nema því samtals 7,3 milljörðum króna samanborið við 6,0 milljarða króna á árinu 2013.
Aflögð starfsemi
Hagnaður af aflagðri starfsemi nam 6.833 milljónum króna á árinu. Í apríl sl. seldi bankinn 18,8% hlut í HB Granda hf., en bankinn átti fyrir söluna 31% hlut, og er stærstur hluti þessa hagnaðar tilkominn af þeirri sölu. Í kjölfar sölunnar og skráningar félagsins á markað var eignarhlutur bankans fluttur undir verðbréfaeign og tekur hann verðbreytingum í samræmi við skráð gengi. Þær virðisbreytingar flokkast undir hreinar fjármunatekjur í rekstrarreikningi.Efnahagsreikningur
Heildareignir samstæðu Arion banka námu 933.736 milljónum króna í árslok. Breytingar á einstökum eignaflokkum á árinu eru einkum vegna breytinga í lausafjárstýringu bankans sem tengjast m.a. nýlega innleiddu lausafjárhlutfalli, LCR. Þessi breyting birtist m.a. í lægri innstæðum hjá Seðlabanka Íslands, hækkun á lánum til lánastofnana og aukinni verðbréfaeign. Þá var nokkuð um nýjar lánveitingar á árinu, bæði til einstaklinga og fyrirtækja í sjávarútvegi, fasteignarekstri og iðnaði. Fjárfestingareignir lækka talsvert á árinu vegna sölu á dótturfélaginu Landfestum ehf. og lækkun á fastafjármunum til sölu og aflagðri starfsemi er að mestu tilkomin vegna sölu á eignarhlut bankans í HB Granda hf.Lán til viðskiptavina
Lán til viðskiptavina námu 647.508 milljónum króna í árslok. Frá árinu 2010 hefur lánabók samstæðunnar stækkað umtalsvert og tveir atburðir skýra einkum þá stækkun. Í fyrsta lagi kaup bankans á Arion Bank Mortgages Institutional Investor Fund í árslok 2011, og í annan stað þegar bankinn eignaðist einstaklingslán sem veitt voru af SPRON að virði ríflega 50 milljarða króna í árslok 2013. Íbúðalán eru stór hluti af lánum til einstaklinga og umtalsverður hluti þeirra er áhættulítil lán með mjög góða veðstöðu.Lánasafn samstæðunnar er vel dreift. Um helmingur þess er lán til einstaklinga og hinn helmingurinn er til fyrirtækja í hinum ýmsu atvinnugreinum og er skiptingin í takt við samsetningu íslenska efnahagsumhverfisins.
Verðbréfaeign
Verðbréfaeign nam 101.828 milljónum króna í árslok samanborið við 86.541 milljónir króna í árslok 2013. Hækkunin er einkum tilkomin vegna breytinga í lausafjárstýringu bankans á árinu og viðbótar í hlutabréfastöðu, m.a. vegna endurflokkunar á eignarhlut í Eik fasteignafélagi hf. og skráningar og endurflokkunar á eignarhlut í HB Granda hf.
Óefnislegar eignir
Óefnislegar eignir námu 9.596 milljónum króna í árslok samanborið við 5.383 milljónir króna í árslok 2013. Hækkunin er tilkomin vegna kaupa dótturfélagsins Valitor Holding hf. á dönsku félagasamstæðunni AltaPay A/S. Tilgangur kaupanna er að styðja við stefnu Valitor í uppbyggingu á starfsemi félagsins á Norðurlöndunum á sviði netviðskipta.Skuldir
Heildarskuldir námu 771.524 milljónum króna í árslok samanborið við 793.903 milljónir króna í árslok 2013.Innlán
Heildarinnlán námu 477.849 milljónum króna í árslok og lækka nokkuð milli ára, sem skýrist að mestu leyti af stórum hreyfingum í tengslum við umfangsmikil viðskipti á íslenskum markaði á lokadögum ársins 2014.Lántaka
Snemma á árinu 2014 fékk bankinn lánshæfiseinkunn frá alþjóðlega lánshæfisfyrirtækinu Standard & Poor‘s, fyrstur íslenskra banka í ríflega fimm ár. Einkunnin BB+ var svo staðfest af lánshæfisfyrirtækinu í október sl. og horfum bankans breytt úr stöðugum í jákvæðar. Þetta lánshæfismat, ásamt jákvæðum horfum, mun auka möguleika bankans á innlendum og alþjóðlegum lánsfjármörkuðum á næstu misserum.