Fjármálasvið
Fjármálasvið ber ábyrgð á fjármögnun og fjárstýringu auk þess sem sviðið sér um fjárhagsuppgjör bankans og nokkurra dótturfélaga hans ásamt fjárhagsuppgjöri samstæðunnar. Fjármálsvið annast einnig upplýsingagjöf til stjórnenda og eftirlitsaðila í samræmi við lög og reglugerðir. Þá ber fjármálasvið ábyrgð á eigin viðskiptum bankans. Í árslok 2014 störfuðu 54 starfsmenn á fjármálasviði. Framkvæmdastjóri sviðsins er Stefán Pétursson.
Fjármálasviði er skipt í fimm deildir:
Hagdeild ber ábyrgð á áætlanagerð og greiningu á rekstrarhorfum bankans en deildin annast einnig skýrslugjöf til stjórnenda og eftirlitsaðila sem eru einkum Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands.
Fjármögnun ber ábyrgð á skammtíma- og langtímafjármögnun bankans á innlendum og erlendum markaði. Deildin ber einnig ábyrgð á samskiptum við innlend og erlend lánshæfismatsfyrirtæki.
Fjárstýring ber ábyrgð á lausfjár- og vaxtastýringu bankans. Enn fremur sér hún um innri verðlagningu vaxta, gjaldeyris og afleiða.
Eigin viðskipti bankans heyra beint undir framkvæmdastjóra fjármálasviðs og sjá þau um viðskiptavakt og stöðutöku í skráðum innlendum verðbréfum.
Reikningshald er fjölmennasta deildin á fjármálasviði og ber deildin ábyrgð á fjárhagsuppgjöri bankans og samstæðu hans. Undir reikningshald falla þrjár einingar. Uppgjör annast bókhald og uppgjör móðurfélags og nokkurra smærri dótturfélaga ásamt uppgjöri og afstemmingu bankareikninga, útlána, innlána og lántöku. Kostnaðarbókhald annast bókun og greiðslur vegna rekstrar- og launakostnaðar bankans. Uppgjör sjóða og félaga annast bókhald og uppgjör verðbréfasjóða í umsjá dótturfélagsins Stefnis hf. og lífeyrissjóða sem eru í stýringu hjá Eignastýringu Arion banka.
Þróunar- og markaðssvið
Þróunar- og markaðssvið gegnir mikilvægu hlutverki í stefnumótun bankans og er hreyfiafl og stuðningur við breytingar og framþróun í starfseminni. Á sviðinu eru markaðsdeild, netviðskipti, verkefnastofa og A plús og starfa á því 32 starfsmenn. Framkvæmdastjóri sviðsins er Rakel Óttarsdóttir.
Hlutverk markaðsdeildar er að styðja við uppbyggingu langtíma viðskiptasambands við viðskiptavini bankans með viðeigandi markaðssetningu og boðmiðlun. Markaðssetningin er í takt við stefnu og framtíðarsýn bankans og felst í markaðssetningu á vörum og þjónustu, viðburðastjórnun, innra markaðsstarfi og samfélagslegri ábyrgð ásamt því að hlúa að ímynd og vörumerki bankans.
Netviðskipti leiða þróun í rafrænum viðskiptum, þjónustu og samskiptum við viðskiptavini bankans. Með því að bjóða sífellt fleiri möguleika á vefnum, í netbanka og Arion appinu hafa viðskiptavinir okkar aukið val og geta sótt bankaþjónustu hvar og hvenær sem er. Netviðskipti leiða einnig innleiðingu CRM sem skilar sér í skilvirkari starfsemi og betri þjónustu við viðskiptavininn.
Verkefnastofa stýrir verkefnaskrá bankans og valferli verkefna. Verkefnastofa hefur á að skipa faglegum verkefnastjórum sem stýra stærri verkefnum þvert á bankann með stefnu og framtíðarsýn bankans að leiðarljósi. Öflug verkefnastýring stuðlar að aukinni skilvirkni í framkvæmd verkefna og aðkomu allra hagsmunaaðila að verkefnum.
A plús stýrir innleiðingu straumlínustjórnunar í öllum einingum bankans með betri bankaþjónustu að markmiði. Með A plús leitumst við sífellt við að gera betur í dag en í gær og leitum nýrra leiða til að hjálpa viðskiptavinum okkar að ná sínum markmiðum. Í lok árs 2014 höfðu um 70% af starfsfólki farið í gegnum innleiðingarferlið.
Rekstrarsvið
Rekstrarsvið styður við starfsemi bankans með það að markmiði að allir starfsmenn bankans fái nýtt færni sína til fulls í þágu viðskiptavina. Sviðið samanstendur af upplýsinga- og tæknisviði, viðskiptaumsjón, starfsmannaþjónustu, fasteignum og rekstri og skjalastjórn ásamt því að innkaupastjóri bankans heyrir undir sviðið. Í árslok 2014 störfuðu þar 256 í 246 stöðugildum. Framkvæmdastjóri sviðsins er Sigurjón Pálsson.
Upplýsinga- og tæknisvið
Upplýsinga- og tæknisvið veitir bankanum ráðgjöf og sér honum fyrir lausnum á sviði upplýsingatækni. Framlag upplýsinga- og tæknisviðs liggur í sveigjanlegum kerfum með skýran tilgang og góðu aðgengi starfsmanna að réttum upplýsingum. Hvort tveggja miðar að því að styðja við starfsfólk bankans og gera því kleift að bæta upplifun viðskiptavinarins.
Verkefni sviðsins skiptast í tvo meginhluta. Annars vegar í framleiðslu þar sem fram fer þátttaka í vali á nýjum lausnum inn í kerfaflóru bankans, innleiðing eða nýsmíði lausna auk samþættingar nýjunga, viðbóta og lagfæringa við kerfi sem eru í rekstri. Hinn hlutinn snýr að rekstri upplýsingakerfa sem felur í sér uppsetningu, umsjón og eftirlit með búnaði og kerfum bankans. Við vinnslu allra verkefna, hvort sem er í framleiðslu eða rekstri, er horft til krafna um upplýsingaöryggi og markmiða um heilbrigði og hagkvæmni í þróun og rekstri tæknilegs umhverfis bankans.
Áherslur ársins 2014 voru á framtíðarsýn kerfismyndar og einföldun hennar, vöktun og eftirlit kerfa og að jafna álag milli starfsfólks.
Á árinu 2015 verður lögð aukin áhersla á verkefni tengd betri upplifun viðskiptavina bankans. Þá verður áfram unnið að einföldun kerfismyndar til hagsbóta fyrir viðskiptavini og hagræðingar.
Upplýsinga- og tæknisviði er skipt upp í eftirfarandi fjórar deildir: framlínulausnir, kjarnalausnir og vöruhús, tækniþjónustu og þjónustustjórn. Hákonía Jóhanna Guðmundsdóttir er sviðsstjóri upplýsinga- og tæknisviðs.
Viðskiptaumsjón
Viðskiptaumsjón ber ábyrgð á frágangi viðskipta sem átt hafa sér stað hjá framlínu bankans. Í því felst m.a. að tryggja fylgni við reglur um útfyllingu skjala og rétta skráningu í kerfi bankans. Sérfræðingar viðskiptaumsjónar veita framlínu ráðgjöf ásamt því að vera í beinu sambandi við erlend og innlend fjármálafyrirtæki og í auknum mæli einstaka viðskiptamenn bankans.
Helstu verkefni sviðsins snúa að umsýslu allra innlánsreikninga bankans, kaupum á útlánum og umsjón með skuldabréfum út líftíma þeirra. Framkvæmd útgjaldadreifingar, erlendra greiðslna og bankaábyrgða er hjá viðskiptaumsjón ásamt frágangi allra verðbréfaviðskipta. Þá sér viðskiptaumsjón um seðla- og myntforða bankans ásamt því að annast vörslu allra verðbréfa fyrir bankann og viðskiptavini hans.Viðskiptaumsjón skiptist í eftirfarandi sjö deildir: erlend viðskipti og ábyrgðir, frumvinnsla, greiðsluþjónusta, gagnagæði, útlán, verðbréfaþjónusta og seðla- og myntver. Einar Már Hjartarson er sviðsstjóri viðskiptaumsjónar.
Megináherslur ársins 2014 voru að stytta afgreiðslutíma, auka skilvirkni og efla beina tengingu við viðskiptavininn til að stytta boðleiðir. Sömu áherslur verða á árinu 2015 og mun það styðja við markmið sviðsins að á árinu 2014 var A plús innleitt á sviðinu.
Starfsmannaþjónusta
Mikilvægasta auðlind bankans er starfsfólk hans og er hlutverk starfsmannaþjónustu að framfylgja mannauðsstefnu bankans og styðja við og efla starfsfólk bankans. Á árinu 2014 var mikil áhersla lögð á mannauðsmálin og hefur m.a. verið unnið að jafnlaunavottun bankans. Nánar er fjallað um starfsemi og verkefni deildarinnar í sérstökum kafla um mannauð. Jónas Hvannberg er starfsmannastjóri Arion banka.
Fasteignir og rekstur
Markmið fasteigna og reksturs er að tryggja öllu starfsfólki gott vinnumhverfi sem styður það í verkefnum þess. Kaffi- og veitingaþjónustan rekur bæði mötuneyti og kaffihús bankans ásamt því að sjá um veitingar á viðburðum á vegum bankans. Póst- og prentþjónusta og akstursþjónusta bankans tilheyra sviðinu. Eignaumsýsla sér um og viðheldur öllu húsnæði sem bankinn notar víðsvegar um landið, samtals um 30 þúsund fermetrum, ásamt því að bera ábyrgð á öllu raunlægu öryggi starfsstöðva bankans. Gunnar Jóakimsson er forstöðumaður fasteigna og reksturs.
Skjalastjórn
Skjalastjórn þjónustar öll svið bankans og hefur umsjón með og stýrir skipulagi á skjölum, bæði rafrænum og á pappír. Þá er bókasafn bankans og utanumhald gagnaveitna á ábyrgð sviðsins. Markmið skjalastjórnar er að tryggja að skjöl séu aðgengileg þegar á þarf að halda, að þau hvorki glatist, skemmist né komist í hendur óviðkomandi aðila. Einnig að koma í veg fyrir að ónauðsynlegur pappír eða upplýsingar, í hvaða formi sem er, safnist fyrir á skrifstofum eða í geymslu og að fyrirbyggja ótímabæra eyðingu skjala. Skjalastjóri er Svava Halldóra Friðgeirsdóttir.
Meginverkefni ársins 2014 var innleiðing nýs skjalastjórnarkerfis Arion banka og heldur sú innleiðing áfram árið 2015.
Innkaupastýring
Bankinn lítur svo á að með skýrri og öflugri innkaupastýringu sé mögulegt að ná mikilli hagræðingu í rekstri. Styrk stýring innkaupa eflir samband bankans við birgja hans og tryggir honum bestu kjör hjá þeim. Það leiðir bæði til beins sparnaðar og kemur í veg fyrir kostnað í framtíðinni.
Í nýrri innkaupastefnu bankans er innkaupastjórinn skilgreindur sem miðlægur ráðgjafi sviða bankans í samskiptum við birgja um innkaup. Innkaupastjóri hefur þannig yfirsýn og þekkingu á sambandi bankans við birgja og samninga þeim tengdum. Þetta fyrirkomulag skilaði góðum árangri á árinu 2014. Innkaupastjóri bankans er Jón Gunnar Björnsson.
Lögfræðisvið
Á lögfræðisviði er lögð áhersla á að veita sjálfstæða lögfræðiráðgjöf. Jafnframt er lögð áhersla á tengsl við aðrar deildir bankans, til að tryggja að lögfræðingar komi nægjanlega snemma að þeim álitaefnum sem til úrlausnar eru. Unnið er í teymum, þannig að þekking og reynsla hvers starfsmanns sé nýtt og upplýsingaflæði sé fullnægjandi. Í árslok 2014 störfuðu 45 starfsmenn á lögfræðisviði. Framkvæmdastjóri sviðsins er Jónína S. Lárusdóttir.
Lögfræðisvið skiptist í fjórar einingar.
Í fullnustu og málflutningi er unnið að fullnustu krafna Arion banka og annarra aðila sem gerðir eru sérstakir samningar um. Jafnframt er þar sinnt málflutningi fyrir bankann.
Í lögfræðiráðgjöf er unnið að ráðgjöf fyrir tilteknar deildir bankans. Í ráðgjöf eru þrír hópar sem sérhæfa sig í ráðgjöf fyrir mismunandi deildir og einingar innan bankans.
Í lögfræði- og skjaladeild útlánasviða er unnið að ráðgjöf og skjalagerð fyrir viðskiptabankasvið og fyrirtækjasvið. Þar eru tveir hópar, sem sérhæfa sig annars vegar í ráðgjöf og skjalagerð fyrir einstaklinga og hins vegar fyrir fyrirtæki auk annarrar lögfræðiþjónustu við útlánasviðin. Þá sinnir deildin einnig málefnum tengdum gjaldeyrishöftum.
Rekstur sér svo um almennt utanumhald sviðsins og almenna aðstoð við starfsmenn þess.
Skrifstofa bankastjóra
Undir skrifstofu bankastjóra falla meðal annars, fyrir utan bankastjóra sjálfan, aðstoðarmenn/ritarar; sérfræðingur í viðskiptaþróun, forsvarsmaður Arion banka í nýsköpun og umboðsmaður viðskiptavina. Samskiptasvið tilheyrir jafnframt skrifstofu bankastjóra sem og regluvarsla. Í árslok 2014 störfuðu 16 starfsmenn á skrifstofu bankastjóra.
Nánar til tekið felast verkefni sviðsins í almennri aðstoð við bankastjóra og utanumhaldi vegna stjórnar- og nefndarfunda. Viðskiptaþróun sinnir þróun og stefnumótun bankans til lengri og skemmri tíma. Meðal verkefna á sviði nýsköpunar má nefna Startup Reykjavík, Startup Energy Reykjavík og Startup Arion sem er nýsköpunarhraðall innan bankans. Í verkahring umboðsmanns viðskiptavina er greining og eftirfylgni á málum einstaklinga og fyrirtækja.
Samskiptasvið heldur utan um samskipti og almannatengsl bankans gagnvart ytri markhópum ásamt boðskiptum við innri markhópa.
Hlutverk regluvörslu bankans er að tryggja að starfsemin sé lögum samkvæmt og í samræmi við varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Nánar um regluvörslu Arion banka.