Áhættustýringarsvið
Áhættustýringarsvið bankans er sjálfstæð stjórnunareining og ber ábyrgð gagnvart bankastjóra. Í árslok 2014 störfuðu 28 starfsmenn á áhættustýringarsviði. Framkvæmdastjóri sviðsins er Gísli S. Óttarsson.
Áhættustýringarsvið skiptist í fimm einingar.
Lánagreining styður við og hefur eftirlit með lánaumsóknarferli og lánveitingarákvörðunum, allt frá undirbúningi umsóknar til útgreiðslu láns. Einingin er helsti tengiliður áhættustýringar við lánanefndir bankans og gefur skriflegt álit á öllum lánaumsóknum sem fara fyrir lánanefnd stjórnar og lánanefnd Arion banka.
Útlánaeftirlit fylgist með ótryggum og niðurfærðum útlánum gagnvart einstökum viðskiptavinum, ákvarðar niðurfærslu lána og gefur skýrslu um niðurfærslur og afskriftir til lánanefndar Arion banka.
Eiginfjárgreining ber ábyrgð á þróun og framkvæmd innra mats á eiginfjárþörf (ICAAP) bankans og er tengiliður vegna könnunar- og matsferlis (SREP) Fjármálaeftirlitsins. Einingin er ábyrg fyrir þróun á líkani fyrir úthlutun eigin fjár til sviða bankans sem er undirstaða innra mats á eiginfjárþörf.
Eignasafnsáhætta er ábyrg fyrir greiningu, eftirliti og upplýsingagjöf vegna áhættu tengdri misvægi eigna og skulda, þ.m.t. lausafjáráhættu.
Rekstraráhætta hefur eftirlit með áhættu sem tengist daglegum rekstri bankans.
Öryggisstjóri bankans tilheyrir áhættustýringu en meginhlutverk hans er að vinna að stefnumótun öryggismála, hafa yfirumsjón með þeim og upplýsa Öryggisnefnd og framkvæmdastjórn. Hann ber jafnframt ábyrgð á viðbragðsáætlunum bankans.
Nánari umfjöllun um áhættustýringu bankans er að finna í umfjöllun um áhættustýringu og í áhættuskýrslu bankans fyrir árið 2014.
Regluvarsla
Innan bankans starfar sjálfstæður regluvörður í samræmi við erindisbréf stjórnar. Regluvörður hefur einkum eftirfarandi hlutverkum að gegna:
- Að fylgjast með og meta reglulega hæfi og skilvirkni ráðstafana og aðgerða sem gripið hefur verið til með það að markmiði að lágmarka hættu á misbrestum við að uppfylla skyldur bankans samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti og lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
- Að veita starfsmönnum bankans nauðsynlega fræðslu og ráðgjöf til að uppfylla skyldur sínar og bankans samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti, lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka o.fl.
- Að rannsaka og tilkynna lögreglu um grun um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka og tilkynna FME um grun um markaðssvik. Regluvarsla framkvæmir einnig sjálfstæðar rannsóknir ef upp kemur grunur um brot gegn samkeppnislögum.
Regluvörður heyrir beint undir bankastjóra og gefur bankastjóra reglulega skýrslu um störf sín. Þá gefur regluvörður stjórn árlega skýrslu, auk þess að gefa endurskoðunar- og áhættunefnd stjórnar skýrslu ársfjórðungslega. Regluvörður hefur heimild til að skjóta málum beint til stjórnar, ef hann telur slíkt nauðsynlegt. Regluvörður sinnir einnig útvistuðum verkefnum frá Stefni hf. og tilteknum lífeyrissjóðum.
Hákon Már Pétursson er regluvörður Arion banka og var regluvarsla Arion banka með sex starfsmenn í árslok 2014.
Innri endurskoðun
Innri endurskoðandi er skipaður af stjórn og heyrir beint undir hana. Stjórn setur innri endurskoðanda erindisbréf sem skilgreinir ábyrgð og umfang vinnu hans. Hlutverk innri endurskoðunar er að veita óháða og hlutlæga staðfestingu og ráðgjöf sem ætlað er að vera virðisaukandi og bæta rekstur bankans. Endurskoðunin nær yfir bankann sjálfan, flest dótturfélög og lífeyrissjóði í rekstri hans. Erindisbréf innri endurskoðanda, leiðbeinandi tilmæli FME um störf endurskoðunardeilda fjármálafyrirtækja nr. 3/2008 og alþjóðlegir staðlar um innri endurskoðun móta endurskoðunina. Skoðunum innri endurskoðunar bankans lýkur með endurskoðunarskýrslu þar sem settar eru fram áhættumiðaðar athugasemdir með tímasettum kröfum um úrbætur. Innri endurskoðun fylgir úrbótum eftir ársfjórðungslega.
Í innri endurskoðun störfuðu 8 starfsmenn í árslok 2014. Lilja Steinþórsdóttir er innri endurskoðandi Arion banka.
Umboðsmaður viðskiptavina
Umboðsmaður viðskiptavina er skipaður af bankastjóra. Hlutverk hans er að tryggja sanngirni og hlutlægni gagnvart viðskiptavinum, koma í veg fyrir mismunun og tryggja að ferli við meðferð mála sé gegnsætt og skriflegt.
Umboðsmaður viðskiptavina tók til skoðunar 202 mál á árinu 2014, samanborið við 186 mál árið 2013. Helgi G. Björnsson er umboðsmaður viðskiptavina Arion banka.