Eignabjarg ehf. ber ábyrgð á umsýslu og sölu á fyrirtækjum og eignahlutum í fyrirtækjum sem Arion banki hefur leyst til sín og Eignabjarg keypt af bankanum eftir að fyrirtækin hafa farið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu.
Markmið með rekstri Eignabjargs er að tryggja sjálfstæði þeirra fyrirtækja sem félagið hefur eignast og sjá til þess að þau séu seld í opnu söluferli, þar sem gagnsæis og jafnræðis er gætt.
Flest þau fyrirtæki sem verið hafa í eignasafni Eignabjargs hafa nú verið seld í opnu söluferli.
Á árinu 2014 var lokið við fjárhagslega endurskipulagningu á Reitum fasteignafélagi hf. Stefnt er að skráningu Reita í kauphöll á aðalmarkað NASDAQ OMX á Íslandi á árinu 2015. Í framhaldinu er stefnt að slitum á Eignabjargi þar sem félagið hefur þá lokið hlutverki sínu.
Landey ehf. er eignaumsýslufélag um fasteignaþróunarverkefni. Slík verkefni eru yfirleitt ekki tekjuberandi nema að hluta og oft er um að ræða flókin og umfangsmikil verkefni. Hlutverk félagsins er að viðhalda og auka verðmæti eignanna með faglegri þróun, hönnun og uppbyggingu þar til viðunandi verð fæst fyrir þær.