Stefnir hf. er stærsta sjóðastýringarfyrirtæki landsins með um 403 milljarða króna í virkri stýringu. Félagið er að fullu í eigu Arion banka samstæðunnar og starfstöðvar félagsins eru í höfuðstöðvum bankans. Eignir í stýringu félagsins eru í eigu fjölbreytts hóps fjárfesta, allt frá einstaklingum upp í stærstu fagfjárfesta landsins. Eignir sjóðfélaga eru ýmist í verðbréfa-, fjárfestingar- eða fagfjárfestasjóðum, auk þess sem Stefnir hefur gert rekstrarsamninga um stýringu á eignum nokkurra samlagshlutafélaga. Í árslok 2014 voru 24 starfsmenn hjá Stefni.
Eignir í stýringu lækka frá fyrra ári og má rekja lækkunina til breytingar á stærsta fagfjárfestasjóði Stefnis, ABMIIF, en hlutabréfasjóðir og sérhæfðar fjárfestingar stækka aftur á móti töluvert á árinu. Dreifing eignaflokka í eignum í stýringu er góð og tekjusamsetning félagsins hefur farið batnandi ár frá ári, en það hefur verið eitt af áhersluatriðum stjórnar félagsins.
Starfsmenn félagsins og stjórn hafa skilgreint kjarnahæfni félagsins og áherslur til næstu ára. Stefna félagsins er skýr og stjórn hefur sett félaginu árangursmarkmið, sem mæld eru með reglubundnum hætti. Stjórn Stefnis hefur tileinkað sér góða stjórnarhætti og hefur einsett sér að stuðla að og styðja við ábyrga hegðun og fyrirtækjamenningu innan Stefnis, til hagsbóta fyrir alla hagsmunaaðila félagsins. Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands staðfesti í janúar 2012 að Stefnir væri fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum og var Stefnir fyrsta fyrirtækið á Íslandi til að hljóta nafnbótina. Stöðugt er unnið að viðhaldi og þróun stjórnarhátta hjá félaginu og er árleg endurnýjun viðurkenningarinnar liður í því ferli. Félagið birtir nú árlega á heimasíðu sinni stjórnarháttayfirlýsingu þar sem greint er frá starfsemi félagsins og áherslum til næstu missera. Mikil áhersla er lögð á gagnsæi og endurspeglast það meðal annars í mikilli upplýsingagjöf á heimasíðu félagsins. Sú upplýsingagjöf er umtalsvert víðtækari en lög og reglugerðir mæla fyrir um.
Mikil áhersla er lögð á gagnsæi og endurspeglast það meðal annars í mikilli upplýsingagjöf á heimasíðu félagsins.
Stefnir hlaut viðurkenningu frá Creditinfo sem eitt af framúrskarandi fyrirtækjum ársins 2014 líkt og árin 2013 og 2012, en það er ánægjulegt að félagið teljist til þeirra fyrirtækja sem efla íslenskt atvinnulíf.
Fjárfestingarumhverfið var áfram háð þeim takmörkunum sem gjaldeyrishöftin setja erlendri fjárfestingu. Eignir innlendra lífeyrissjóða héldu áfram að vaxa og mikil áhersla hefur verið lögð á að þróa sjóðaafurðir sem henta lífeyrissjóðum, tryggingafélögum og öðrum fagfjárfestum.
Ávöxtun sjóða Stefnis er misjöfn eftir eignaflokkum en verðtryggðir skuldabréfasjóðir hafa átt á brattann að sækja á meðan óverðtryggð skuldabréf hafa notið hærri ávöxtunar en þau verðtryggðu. Verðbólga hjaðnaði mikið á árinu sem leiddi til töluverðar kröfulækkunar á óverðtryggðum skuldabréfum. Undir lok árs lækkaði svo Seðlabankinn stýrivexti um samtals 0,75% sem leiddi til verðhækkunar skuldabréfa.
Innlendir hlutabréfasjóðir í rekstri Stefnis áttu gott ár, bæði voru nokkrar hækkanir á innlendum markaði undir lok árs auk þess sem nokkurt innflæði var í sjóði. Blandaðir sjóðir nutu einnig góðs af hækkunum á innlendum markaði en þess má geta að Stefnir–Samval sameinaðist tveimur minni blönduðum sjóðum á árinu og er nú orðinn sá sjóður sem er með flesta hlutdeildarskírteinishafa á Íslandi. Stefnir–Samval er elsti blandaði sjóður í rekstri hér á landi. Sjóðurinn hefur reynst góður valkostur fyrir almenning sem vill ávaxta sparnað sinn á ólíkum eignamörkuðum, en hefur hugsanlega ekki tíma eða sérþekkingu til að færa fjármuni á milli einstakra fjárfestingarkosta eða eignamarkaða. Meðalársávöxtun síðustu fimm ára er 13,9% og síðustu tíu ára 15,8%.
Þrátt fyrir gjaldeyrishöft, smáan en vaxandi hlutabréfamarkað og litla útgáfu fyrirtækja-skuldabréfa hefur félaginu tekist að laga sig að breyttu umhverfi á síðustu misserum og vera í fararbroddi við þróun nýrra afurða sem mæta kröfum fjölbreytts hóps innlendra fjárfesta.
Erlendir hlutabréfasjóðir í stýringu Stefnis eru metnir af viðurkenndum erlendum matsfyrirtækjum, Morningstar og Lipper. Sjóðirnir hafa jafnan komið mjög vel út úr matsferli þessara fyrirtækja. Um áramótin voru allir fimm sjóðir Stefnis með þrjár eða fjórar stjörnur hjá Morningstar og einn sjóðanna með hæstu einkunn hjá Lipper. Góð ávöxtun sjóðanna leiddi til þess að innlendir fjárfestar lögðu sjóðunum til nýtt fjármagn á árinu. Vegna gjaldeyrishafta hafa innlendir fjárfestar fyrst þurft að innleysa fjármuni úr öðrum erlendum sjóðum eða erlendum eignum áður en fjárfest er í sjóðum Stefnis. Þrátt fyrir gjaldeyrishöft, smáan en vaxandi hlutabréfamarkað og litla útgáfu fyrirtækjaskuldabréfa hefur félaginu tekist að laga sig að breyttu umhverfi á síðustu misserum og vera í fararbroddi við þróun nýrra afurða sem mæta kröfum fjölbreytts hóps innlendra fjárfesta.
Leiðandi í framtaksfjárfestingum á Íslandi
Stefnir hefur verið leiðandi í framtaksfjárfestingum og sérhæfðum afurðum á Íslandi um árabil. Þörfin fyrir fjölbreytta fjárfestingarkosti er augljós og hafa afurðir Stefnis mætt þessari eftirspurn með ábyrgum fjárfestingarkostum sem henta eignasöfnum fjárfesta. Athafnasjóðirnir SÍA I og SÍA II hafa tekið þátt í stórum innlendum verkefnum. Sjóvá Almennar tryggingar var skráð á markað á árinu og SÍA II ásamt dreifðum hópi fjárfesta keypti Skeljung hf, færeyska olíudreifingarfyrirtækið Magn og innlenda starfsemi Norvíkur. Fjárfesting í vel staðsettu atvinnuhúsnæði í gegnum SRE II slhf., sem er í rekstri Stefnis, gekk vel á árinu og bættust nýjar eignir við safn sjóðsins og er hann nú nær fullfjárfestur.
Valitor hf. er framsækið þjónustufyrirtæki á sviði greiðslumiðlunar og greiðslulausna sem starfar á alþjóðlegum vettvangi og leggur áherslu á frumkvæði, samvinnu og traust. Hlutverk félagsins er að skapa viðskiptavinum ný tækifæri í krafti framúrskarandi tæknilausna. Valitor hefur frá öndverðu gegnt forystuhlutverki á íslenska kortamarkaðnum í þjónustu, nýjungum og hagkvæmni. Jafnframt eru alþjóðleg viðskipti sívaxandi þáttur í starfsemi félagsins. Við árslok 2014 voru starfsmenn Valitor og dótturfélaga um 190 talsins.
Valitor hefur frá öndverðu gegnt forystuhlutverki á íslenska kortamarkaðnum í þjónustu, nýjungum og hagkvæmni. Jafnframt eru alþjóðleg viðskipti sívaxandi þáttur í starfsemi félagsins.
Helstu verkefni 2014
Mikil aukning varð í færsluhirðingu Valitor erlendis á árinu 2014. Annars vegar ber þar hæst stóraukið umfang á samstarfi Valitor við hið ört vaxandi sænska fyrirtæki Klarna AB sem býður kortatengda þjónustu á völdum mörkuðum. Hins vegar varð veruleg aukning á samstarfi Valitor við Stripe um færsluhirðingu í Evrópu. Stripe er eitt öflugasta fyrirtæki í heiminum á sínu sviði en fyrirtækið einfaldar viðskipti á netinu og vinnur m.a. með Apple, Twitter og Facebook. Einnig varð umtalsverð aukning á færsluhirðingu Valitor á hefðbundnum greiðslukortum fyrir kaupmenn á Írlandi.
Tímamótasamstarf hófst við MasterCard um útgáfu í Evrópu á fyrirframgreiddum kortum en Valitor hefur unnið með Visa að slíkri útgáfu í Evrópu undanfarin fjögur ár. Jafnframt hófst samstarf við MasterCard og breska fyrirtækið Caxton FX um útgáfu fyrirframgreiddra gjaldeyriskorta í Bretlandi. Valitor og Caxton FX gefa í sameiningu út fyrirframgreidd kort sem byggjast á fjölmyntaveski („multi currency e-wallet“) er Valitor hefur hannað.
Á árinu hófst nýr kafli í rafrænum viðskiptum hérlendis þegar fyrsta snertilausa færslan fór fram. Sérhæfðum posabúnaði Valitor var dreift til söluaðila og opnuð var umsóknargátt fyrir almenning fyrir snertilaus kreditkort og síma-app.
Hér heima lagði Valitor lokahönd á og fínstillti nýtt kortaútgáfukerfi hjá viðskiptabönkum landsins. Kerfið markar þáttaskil í þjónustu við útgefendur og korthafa og er hannað af sérfræðingum fyrirtækisins. Jafnframt gerði Valitor mikilvæga útgáfusamninga við innlenda samstarfsbanka. Á árinu hófst nýr kafli í rafrænum viðskiptum hérlendis þegar fyrsta snertilausa færslan fór fram. Sérhæfðum posabúnaði Valitor var dreift til söluaðila og opnuð var umsóknargátt fyrir almenning fyrir snertilaus kreditkort og síma-app. Þar með sér fyrir endann á NFC tilraunaverkefni Valitor með VISA EU, Oberthur og íslensku bönkunum um innleiðingu snertilausra viðskiptahátta á Íslandi.
Samkeppnismál voru enn ofarlega á baugi. Valitor gekkst undir sátt við Samkeppniseftirlitið (SE) vegna tilhögunar greiðslukortamála 2007-2009. SE kaus að beita sektum í þessu máli, ólíkt því sem gerist í nágrannalöndunum, og greiddi Valitor 220 m.kr. í sekt. Kjarni málsins snýr að kerfisbreytingu á milligjöldum. Valitor telur umfangsmiklar breytingar á íslenska greiðslukortakerfinu, samhliða sáttinni, að mörgu leyti jákvæðar. Þar ber hæst jöfnun á samkeppnisstöðu varðandi VISA- og MasterCard-kort. Í tengslum við kerfisbreytingarnar urðu breytingar á eignarhaldi Valitor þar sem Arion banki keypti hlut Landsbankans í félaginu.
Verkefni og tækifæri fram undan
Innan Valitor hefur myndast gríðarlega verðmæt þekking og þar af leiðandi samkeppnishæfni á alþjóðlegan mælikvarða. Við blasa spennandi tækifæri til enn frekari vaxtar félagsins á lykilmörkuðum erlendis. Valitor sækir nú um 30% af tekjum sínum á þessa markaði en stefnt er að því að 50% teknanna komi frá starfsemi erlendis á næstu tveimur árum. Áhersla verður lögð á að hlúa sem best að núverandi viðskiptavinum og vaxa með þeim, og þá ekki síst að hámarka gæði og verðmæti samstarfsins við þá nýju samstarfsaðila sem Valitor hefur snúið bökum saman við á síðustu misserum. Samhliða verður unnið að því að auka enn frekar sjálfvirkni, sveigjanleika og öryggi kerfa félagsins.
Starfsemi Markadis verður efld til muna á árinu. Kaupin á AltaPay munu auka vöruframboð Valitor á lykilmörkuðum og gera félaginu kleift að sækja þar fram af auknum krafti.
Starfsemi Markadis verður efld til muna á árinu. Kaupin á AltaPay munu auka vöruframboð Valitor á lykilmörkuðum og gera félaginu kleift að sækja þar fram af auknum krafti. Mikill vöxtur er í starfsemi AltaPay og er gert ráð fyrir nokkurri fjölgun starfsmanna félagsins á árinu. Mjög álitleg sóknarfæri eru í útgáfu fyrirframgreiddra korta en því er spáð að fram til ársins 2020 muni markaðurinn stækka um 15-20% á ári. Valitor er í fararbroddi í Evrópu þegar kemur að samþættingu kortaútgáfu og vinnslu sem elur af sér margvísleg tækifæri.
Af einstökum verkefnum hér heima má nefna að Valitor mun á næstu mánuðum breyta þjónustugjöldum til kaupmanna í samræmi við nýtt fyrirkomulag á greiðslukortamarkaði. Mikilvægt er að lækkun á milligjöldum skili sér að fullu til almennings. Valitor mun halda áfram að útfæra snertilaus viðskipti. Íslenskir kaupmenn eiga þess nú kost að fá uppfærslu á posabúnaði sínum og geta boðið viðskiptavinum að greiða snertilaust fyrir vörur og þjónustu. Ljóst er að framtíð greiðslukortaviðskipta liggur á þessu sviði. Yfir 70 milljónir snertilausra korta eru nú þegar í umferð í Evrópu og Valitor gerir ráð fyrir því að árið 2020 verði ríflega helmingur allra kortafærslna á Íslandi framkvæmdur með snjallsímum.
OKKAR líftryggingar hf. (OKKAR líf) er fyrsta líftryggingarfélagið sem hóf starfsemi á Íslandi. Félagið var stofnað árið 1966 af hópi íslenskra fjárfesta og bresku líftryggingarfélagi og hét þá Alþjóða líftryggingarfélagið hf. Meginhlutverk fyrirtækisins er að tryggja viðskiptavinum fjárhagslega vernd vegna sjúkdóma, örorku og andláts með hag þeirra og eigenda félagsins að leiðarljósi. Alls störfuðu 15 manns hjá félaginu í árslok 2014.
OKKAR líf hefur frá upphafi verið brautryðjandi í þróun persónutrygginga hér á landi. Sjúkdómatryggingar, barnatryggingar, örorkutryggingar og margs konar hóptryggingar eru meðal þess sem félagið hefur haft forystu um að kynna Íslendingum.
OKKAR líf er sjálfstætt starfandi tryggingafélag, óháð öðrum vátryggingarfélögum og er starfsemi fyrirtækisins skipt niður í fjögur svið; vátryggingarsvið, fjármálasvið, sölu- og markaðssvið og upplýsinga- og tæknisvið. Samstarfsaðilar í sölu og dreifingu eru Arion banki hf. og Tekjuvernd ehf. en Tekjuvernd selur einnig lífeyrisafurðir fyrir Arion banka.
Árið 2014 var félaginu hagstætt þrátt fyrir að ytri skilyrði til fjárfestinga væru ekki eins og best verður á kosið. Tryggingaleg afkoma var góð, arðsemi eigin fjár var 14% og samsett hlutfall 84%. Fjárfestingartekjur drógust saman milli ára, enda fáir fjárfestingarkostir í boði. Gjaldþolshlutfall í árslok 2014 reyndist 2,49.
Félagið náði markmiðum sínum í sölu á nýjum tryggingum á árinu. Salan á OKKAR Séreign sem kynnt var haustið 2012, í samvinnu við eignastýringu Arion banka, gekk áfram vel og einnig var mikil söluaukning á öðrum vörum félagsins. Hlutfall trygginga sem sagt var upp hélt áfram að lækka og því varð umtalsverð aukning á fjölda skírteina í stofni félagsins.
Óhætt er að segja að umhverfið hafi breyst á árinu. Ein af aðgerðum ríkisstjórnarinnar varðandi leiðréttingu verðtryggðra húsnæðislána hafði í för með sér skattleysi á útgreiðslur úr séreignarsparnaði. Við það dró úr samkeppni frá breskum og þýskum líftryggingarfélögum og hafa sum þeirra hætt sölu trygginga hér á landi.
Helstu verkefni OKKAR lífs hafa óneitanlega tengst breyttri stöðu á markaðnum. Stíft kostnaðaraðhald, nýjungar í vöruframboði og betri greining á þörfum viðskiptavina hafa verið megináherslurnar í rekstrinum. Á árinu var byrjað að bjóða viðskiptavinum Arion banka líftryggingu við töku íbúðalána og farið var í markaðsátak til að auglýsa nýja sjúkdómatryggingu, Sjúkdómatryggingu XL, sem er endurvekjanleg eftir greiðslu bóta.
Í lok árs 2014 var undirritaður samningur um styrkveitingu frá OKKAR líftryggingum til Krabbameinsfélags Íslands. Tilefni samningsins er að aðstoða Krabbameinsfélagið við að undirbúa skipulagða leit að krabbameini í ristli á Íslandi. Með samningnum mun ákveðin fjárhæð af seldum tryggingum á árinu 2015 renna til Krabbameinsfélagsins vegna verkefnisins.
Framtíðarhorfur
Horfur fyrir árið 2015 eru nokkuð góðar. Arion banki og OKKAR líf munu áfram vinna að útvíkkun þjónustuframboðs fyrir viðskiptavini bankans og verður mikil áhersla lögð á það samstarf á komandi ári. Hófleg söluaukning er áætluð á árinu í öllum vöruflokkum, bæði í fjölda trygginga og greiddum iðgjöldum. Þrátt fyrir nokkra óvissu í ytra umhverfi, m.a. vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar í tengslum við séreignarsparnað landsmanna, eru langtímahorfur OKKAR lífs bjartar, ekki síst vegna aukins samstarfs við Arion banka.