Efnahagsbatinn hélt áfram á árinu 2014, þó að hann hafi verið nokkuð minni en árið á undan. Innlend eftirspurn tók vel við sér en framlag utanríkisviðskipta varð neikvætt. Verðbólga lækkaði verulega og áfram dró úr atvinnuleysi. Fjárhagsleg skilyrði heimila bötnuðu enn frekar og ríkissjóður var rekinn með afgangi í fyrsta sinn frá árinu 2007. Eignamarkaðir héldu áfram að dafna en bæði fasteigna- og hlutabréfamarkaðurinn sóttu í sig veðrið á árinu. Nokkrir áhættuþættir eru þó til staðar eins og ávallt. Þeir helstu að þessu sinni snúa einkum að losun gjaldeyrishafta, uppgjörum föllnu bankanna, komandi kjarasamningum og að einhverju leyti hagvaxtarhorfum hjá helstu viðskiptalöndum Íslands.
Hagvöxtur olli vonbrigðum
Þó nokkuð hægði á gangi hagkerfisins á árinu 2014, eftir góðan bata árið á undan. Innflutningur jókst umtalsvert og framlag utanríkisverslunar varð neikvætt á ný, þrátt fyrir enn eitt metárið í fjölda ferðamanna. Innlend eftirspurn jókst aftur á móti töluvert og bæði einkaneysla og fjárfesting tók vel við sér á árinu. Mikil aukning varð í almennri atvinnuvegafjárfestingu og einnig í fjárfestingu í íbúðarhúsnæði. Þrátt fyrir að nokkuð hafi hægt á hagvexti á árinu 2014 virðist sem hagkerfið hafi loksins náð því framleiðslustigi sem var hér þegar fjármálakreppan skall á í árslok 2008.
Aðstæður á vinnumarkaði héldu áfram að batna á árinu 2014. Hlutfall starfandi einstaklinga hækkaði enn frekar frá fyrra ári og á sama tíma fjölgaði heildarvinnustundum. Í upphafi árs 2014 stóð atvinnuleysi í 6,8% en mældist 4,3,% í lok árs. Engu að síður virðist stór hluti batans nú þegar vera kominn fram og eftir því sem atvinnuleysi kemst nær jafnvægisgildi sínu hefur hægt á hjöðnun þess. Helstu vísbendingar um vinnumarkaðinn benda þó til þess að eitthvert svigrúm sé enn til staðar til að auka eftirspurn eftir vinnuafli án þess að það skapi verulegan þrýsting á laun.
FJÁRFESTING RÉTTIR ÚR KÚTNUM
Töluverður vöxtur var í fjárfestingu á árinu 2014 þrátt fyrir að hún sé enn þó nokkuð undir langtímameðaltali. Mikill þróttur var í fjárfestingu í íbúðarhúsnæði á árinu 2014 eftir ládeyðu undanfarinna ára. Atvinnuvegafjárfesting tók einnig við sér og stefnir í að verða aðaldrifkraftur fjárfestinga næstu tveggja ára. Fjárfesting á engu að síður enn nokkuð í land með að ná langtímameðaltali sínu og er mikilvægt að hún nái sér almennilega á strik ef öflugur hagvöxtur á að nást á næstu árum. Einnig er mikilvægt að gjaldeyrisskapandi fjárfesting aukist til að auðvelda losun fjármagnshafta.
DREGIÐ HEFUR ÚR AFGANGI AF VIÐSKIPTUM VIÐ ÚTLÖND
Töluverður afgangur hefur verið af viðskiptum við útlönd frá árinu 2009 og hefur afgangur verið að meðaltali um 5,6% af vergri landsframleiðslu á ári. Það virðist þó hafa dregið lítillega úr afganginum á árinu 2014, eftir metafgang árið 2013.
Heimild: Seðlabanki Íslands
Á undanförnum árum hefur lágt raungengi stutt við útflutningsgreinar Íslands. Raungengið hækkaði þó töluvert á árinu 2014 og var að meðaltali 6,8% sterkara en ári áður. Í lok árs var það engu að síður enn rúmlega 9% lægra en meðalraungengi síðustu áratuga. Hækkun raungengis á árinu skýrist fyrst og fremst af hærra nafngengi krónunnar, en verðbólga hefur einnig verið rúmri prósentu hærri hér en í helstu viðskiptalöndum Íslands.
Innflutningur jókst hraðar en útflutningur á árinu 2014, öfugt við þróunina ári áður. Afgangur utanríkisviðskipta minnkaði þó ekki verulega þar sem viðskiptakjör bötnuðu frá árinu áður. Verð á áli og sjávarafurðum hækkaði nokkuð á árinu 2014, en ál- og sjávarafurðir vega tæplega helming af útflutningi landsins. Á sama tíma lækkaði almennt verð á hrávöru og því varð innflutningur landsins ódýrari fyrir vikið. Munar þar mestu um gífurlega lækkun á olíuverði.
Þjónustuútflutningur hefur haldið áfram að vaxa samhliða fjölgun ferðamanna til landsins. Hlutfall þjónustuútflutnings í heildarútflutningi Íslendinga var tæp 49% árið 2014, eftir að hafa verið á bilinu 41-42% á árunum 2009-2012. Enda hefur erlendum ferðamönnum sem heimsækja landið fjölgað um 111% frá árinu 2010. Enn eitt metið var slegið á árinu 2014 þegar tæp milljón erlendra ferðamanna heimsótti landið.
MUN LÉTTBÆRARI ENDURGREIÐSLUFERILL FRAM UNDAN
Endurgreiðsluferill fyrirtækja og opinberra aðila í erlendum gjaldeyri á næstu árum er orðinn nokkuð viðráðanlegri heldur en á horfðist eftir að endursamið var um skuld Landsbankans við gamla Landsbankann. Samningsbundnar erlendar afborganir, annarra en ríkissjóðs og Seðlabankans, á næstu fjórum árum eru nú um helmingi lægri, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, en þær hafa verið á síðastliðnum fjórum árum. Endurgreiðsluferill annarra fyrirtækja en fjármálastofnana og fyrirtækja í opinberri eigu sem hafa tekjur í erlendri mynt hefur minnkað hratt og með bættu aðgengi að erlendum lánsfjármörkuðum er væntanlega hægt að endurfjármagna stóran hluta þess endurgreiðsluferils sem úti stendur sé það æskilegt. Því ætti þrýstingur á krónuna af þessum sökum ekki að vera mikill á næstunni.
VERÐBÓLGA Í SÖGULEGU LÁGMARKI Í LOK ÁRS
Verðbólga lækkaði töluvert á árinu. Tólf mánaða verðbólga mældist einungis 0,8% í árslok og hafði hún ekki mælst jafnlág í tvo áratugi. Var verðbólgan undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans allt árið 2014 að undanskildum fyrsta mánuði ársins. Sé húsnæðisliðurinn undanskilinn mældist raunar lítils háttar verðhjöðnun undir lok ársins. Töluverð óvissa er um framhaldið en áframhaldandi lækkanir á olíuverði benda til þess að verðbólga muni haldast lág enn um sinn. Helsta óvissan um verðbólguþrýsting á allra næstu mánuðum er vegna yfirvofandi kjarasamninga, en einnig gæti skyndileg hækkun á olíuverði valdið töluverðum þrýstingi. Seðlabankinn hóf vaxtalækkunarfasa undir lok árs og höfðu vextir bankans þá staðið óbreyttir í tvö ár. Samhliða hjöðnun verðbólgunnar hafði raunvaxtastig hækkað og lækkaði bankinn því vexti sína um 0,25 prósentur í nóvember og um aðrar 0,5 prósentur í desember. Stóðu vextir á veðlánum um áramót í 5,25% og hafa ekki verið jafnlágir síðan í maí 2012.
Krónan braut blað og var ein stöðugasta mynt heims á árinu 2014. Seðlabankinn stuðlaði að minni sveiflum í gengi krónunnar með umtalsverðum inngripum á gjaldeyrismarkaði og námu hrein gjaldeyriskaup bankans um 112 milljörðum króna á árinu 2014. Krónan styrktist einungis um 2,6% á árinu gagnvart evru en veiktist um 10% gagnvart bandaríkjadal.
ANNAÐ ÁR HALLALAUSRA FJÁRLAGA
Matsfyrirtækið S&P staðfesti lánshæfiseinkunn Íslands í upphafi árs 2014, en hún er metin BBB-/A-3. Jafnframt var horfunum breytt úr neikvæðum í stöðugar þar sem dregið hafði úr áhættu tengdri ríkisfjármálum. Á árinu 2013 hafði horfunum verið breytt úr stöðugum í neikvæðar vegna þessarar sömu áhættu. Að þessu sinni reiknar S&P með því að skuldaleiðréttingaraðgerðir ríkisstjórnarinnar verði fjármagnaðar með skattahækkunum frekar en hallarekstri og því var horfunum nú breytt úr neikvæðum í stöðugar. Matsfyrirtækin Fitch og Moody’s héldu horfum sínum óbreyttum á árinu. Hjá Moody‘s er lánshæfi Íslands metið Baa3 og hjá Fitch er lánshæfi fyrir erlendar langtímaskuldbingar BBB og fyrir innlendar BBB+. Báðir matsaðilar telja að horfur hér séu stöðugar.
Fjárlög ríkisins voru hallalaus á árinu 2014 í fyrsta sinn í sjö ár. Fjárlög gerðu ráð fyrir lítils háttar afgangi en samkvæmt áætlun stjórnvalda undir lok árs stefnir í mun meiri afgang á árinu 2014 heldur en fjárlög gerðu ráð fyrir. Betri afkoma skýrist nánast að öllu leyti af óreglulegum tekjufærslum, eins og t.d. arðgreiðslum fjármálafyrirtækja og lækkun á skuldabréfi ríkissjóðs við Seðlabankann. Áfram er gert ráð fyrir hallalausum fjárlögum á árinu 2015 en einungis er gert ráð fyrir litlum afgangi og því má lítið út af bera til þess að væntingar um afgang nái fram að ganga. Að þessu sinni er þó einnig nokkuð um jákvæða óvissu, t.d. er gert ráð fyrir lægri arðgreiðslu úr viðskiptabönkunum heldur en raunin var á árinu 2014 og því líklegt að sú arðgreiðsla sem lögð er til grundvallar í fjárlögum sé vanmetin svo einhverju nemi.
EIGNAMARKAÐIR Í SÓKN
Hlutabréfamarkaðurinn hélt áfram að vaxa á árinu 2014. Velta með hlutabréf í Kauphöll Íslands jókst um 16% og nam 292 ma.kr. Aukin velta helst í hendur við fjölgun fyrirtækja í kauphöllinni en tvö ný fyrirtæki voru skráð á árinu 2014. Heildarmarkaðsvirði skráðra félaga á íslenska hlutabréfamarkaðnum nam um 35% af landsframleiðslu í lok árs. Frekari nýskráningar eru fyrirhugaðar á árinu 2015. Aftur á móti hélt áfram að hægjast um á skuldabréfamarkaði á árinu og var velta ársins 2014 töluvert minni en ári áður.
Fasteignamarkaðurinn hélt áfram að sækja í sig veðrið. Vaxandi kaupmáttur, minnkandi atvinnuleysi og aukin lýðfræðileg eftirspurn hefur stutt rækilega við markaðinn undanfarið og mun væntanlega halda áfram að styðja við kröftugan markað á næstu misserum. Fjárhagsleg skilyrði heimila hafa einnig haldið áfram að batna með minnkandi skuldum og hækkun eignaverðs.
Árið 2014 var enn eitt árið þar sem þjóðarbúið var innan gjaldeyrishafta og þrátt fyrir miklar væntingar um stór skref í átt að afléttingu þeirra á seinni hluta ársins varð það ekki raunin. Mikilvægt skref var þó stigið þegar lengt var í skuldabréfi nýja Landsbankans við gamla Landsbankann og létti það töluvert á endurgreiðslubyrði þjóðarbúsins vegna erlendra skulda á næstu árum. Gjaldeyrishöft til lengdar hafa neikvæð áhrif á hagvöxt auk þess að bjaga fjármálamarkaði og eignaverð í landinu. Því er mikilvægt að árið 2015 verði árið sem mikilvæg skref verða tekin úr höftum og mun sú vegferð sem valin verður lita hagkerfið allt í kjölfarið.