Rétti tíminn til að taka stór skref í afnámi gjaldeyrishafta
Þótt gjaldeyrishöftin hafi vissulega verið nauðsynleg á sínum tíma er svo komið í dag að þau eru það ekki lengur, þvert á móti má færa rök fyrir því að þau séu að verða skaðleg. Ég er ekki að draga úr mikilvægi þess að stíga varlega til jarðar við afnám haftanna, þar þarf vissulega að vanda til verka. Einnig þarf að taka tillit til kjaraviðræðna sem fram undan eru. Vonandi tekst þar vel til þannig að framhald verði á stöðugleika og hagvexti öllum til góða.
Rétti tíminn til að taka stór skref í afnámi gjaldeyrishaftanna er núna. Það má leiða að því líkum að með þeim aðgerðum sem þegar hefur verið gripið til, til að stýra brotthvarfi þeirra krónueigenda sem vilja komast út úr íslenska hagkerfinu, hafi verið létt umtalsvert á þeim þrýstingi sem var til staðar. Einnig er það svo að vaxtastig í Evrópu er lágt og ekki heiglum hent fyrir fjárfesta að fá góða ávöxtun. Þrátt fyrir nokkra lækkun vaxta hér á landi eru vextir á Íslandi mun hærri en víðast í Evrópu og ekki ólíklegt að sumum sem eiga hér krónueignir liggi ekki eins mikið á að komast frá landinu og áður.
MONICA CANEMAN
Stjórnarformaður
Þótt áhrif gjaldeyrishafta séu nær engin á nýjar fjárfestingar á Íslandi, hvort sem um er að ræða íslenska eða erlenda fjárfesta, þá er ljóst að gjaldeyrishöft hafa neikvæð áhrif. Þau snúa fyrst og fremst að erlendum fjárfestingum Íslendinga og annarra sem eiga krónueignir. Allar takmarkanir á frjálsu flæði fjármagns hafa neikvæð áhrif og geta skekkt markaðinn og verðmyndun á Íslandi. Auk þess er alveg ljóst að höftin torvelda margvísleg viðskipti íslenskra fyrirtækja við erlenda viðskiptavini, birgja og samstarfsaðila og hrekja jafnvel öflug fyrirtæki sem styrkja íslenskt efnahags- og atvinnulíf úr landi. Meðal annars þess vegna er nauðsynlegt að taka þessi skref nú.
Arion banki fær alþjóðlegt lánshæfismat
Arion banki hefur um margt rutt brautina þegar kemur að sókn íslenskra banka á erlenda lánsfjármarkaði. Arion banki var fyrstur íslenskra banka til að ná sér í erlenda fjármögnun á árinu 2013 og í upphafi árs 2014 fékk Arion banki lánshæfismat frá Standard & Poor´s. Fékk bankinn lánshæfismatið BB+, með stöðugum horfum. Í október 2014 var horfunum breytt í jákvæðar, í ljósi góðrar stöðu íslensks efnahagslífs.
Þótt Arion banki sé fullfjármagnaður og búi ekki við mikla endurfjármögnunarþörf á næstu árum er það skýrt markmið okkar að sækja á alþjóðlega lánsfjármarkaði. Það sýndum við í verki í upphafi árs 2015 þegar bankinn gaf út skuldabréf í evrum að upphæð 300 milljónir eða um 45 milljarðar íslenskra króna. Markmiðið með útgáfunni var fyrst og fremst aukin fjölbreytni í fjármögnun bankans og lægri fjármögnunarkostnaður.
Þannig hefur á undanförnum árum verið unnið ötullega að því að auka fjölbreytni í fjármögnun bankans bæði með innlendri og erlendri útgáfu.
Þannig hefur á undanförnum árum verið unnið ötullega að því að auka fjölbreytni í fjármögnun bankans bæði með innlendri og erlendri útgáfu. Á innlendum markaði hefur bankinn gefið út bæði sértryggð skuldabréf og víxla. Innistæður skipa enn stærsta þáttinn í fjármögnun bankans en áfram verður unnið að því að auka fjölbreytnina á komandi misserum, bæði með sókn á innlenda sem og erlenda markaði.
Gjaldeyrishöft marka lánshæfismat bankans
Gjaldeyrishöftin valda því að lánshæfismat íslenska ríkisins er lágt miðað við sterka stöðu hagkerfisins og jákvæða þróun ríkisfjármála. Það hefur aftur þau áhrif að lánshæfismat íslenskra fjármálafyrirtækja er lægra en það þyrfti að vera í ljósi fjárhagslegs styrks þeirra og hagkerfisins sem þau starfa í. Þetta hefur aftur afleiðingar fyrir íslensk fyrirtæki og heimili þar sem þau vaxtakjör sem íslenskum fjármálafyrirtækjum bjóðast á erlendum lánsfjármörkuðum eru fyrir vikið hærri. Þannig má ætla að íslensku bankarnir gætu í kjölfar afnáms hafta boðið fyrirtækjum með þörf fyrir erlenda lánsfjármögnun betri kjör, sem aftur ætti að skila sér í betri viðskiptakjörum til viðskiptavina þeirra. Enn ein rökin fyrir því að miklu skiptir að tekin verði afdráttarlaus skref í afnámi haftanna.
Vaxtamunur á Íslandi
Við upphaf þessa árs hefur farið fram nokkur umræða á Íslandi um vexti og vaxtamun. Vaxtamunur íslenskra banka hefur á undanförnum árum verið um eða yfir þremur prósentum. Vaxtamunur Arion banka á vaxtaberandi eignir var á árinu 2,8% og lækkar um 0,1% á milli ára. Aftur á móti hefur hann lækkað um 0,6% stig frá árinu 2012 og eru þar að baki margvíslegar ástæður. Hluti af ástæðu þess að vaxtamunur á Íslandi er mikill er smæð landsins og þar af leiðandi hlutfallslega hár kostnaður við fjármálakerfið. Einnig er það staðreynd að litlu hagkerfi sem byggir á tiltölulega fáum stoðum fylgja alltaf sveiflur, eins og Íslendingar þekkja því miður vel. Sveiflum fylgir kostnaður því þegar kreppir að og efnahagslífið dregst saman aukast vanskil sem eru í raun ekkert annað en kostnaður fyrir fjármálakerfið, kostnaður sem endurspeglast í vaxtamun.
Vissulega er það markmið okkar sem störfum hjá Arion banka að bjóða viðskiptavinum hagstæð kjör en þau verða að vera raunhæf og taka þarf tillit til umhverfisins, kostnaðar og þróunar á þeim lánsfjármörkuðum sem bankinn fjármagnar sig á.
Nýverið birti íslenska ráðgjafafyrirtækið Capacent áhugaverða samantekt þar sem fjallað var um kjörstærð banka út frá því að geta boðið viðskiptavinum þeirra hagstæð vaxtakjör. Niðurstaðan var að kjörstærð efnahagsreiknings þyrfti að vera á bilinu 7 til 14 sinnum stærri en efnahagur Arion banka, og svipað á við um aðra íslenska banka. Ef marka má niðurstöðu Capacent má ljóst vera að vaxtamunur íslenskra banka verður meiri en stórra alþjóðlegra banka svo lengi sem þeir mælast smáir í alþjóðlegum samanburði.
Okkar eigin úttekt á vaxtamun banka sem eru svipaðir að stærð og Arion banki styður niðurstöðu framangreindrar könnunar. Þannig eru bankar víðast hvar, t.d. í Danmörku, Þýskalandi, Bretlandi og Bandaríkjunum, sem eru svipaðir að stærð og íslensku bankarnir, með vaxtamun sem er um og yfir þremur prósentum. Það má því ljóst vera að hátt vaxtastig á Íslandi er ekki tilkomið vegna vaxtamunar bankanna heldur hárra stýrivaxta, sem fara lækkandi en eru enn rúm 5%, og hárrar raunávöxtunarkröfu lífeyrissjóða sem eru áhrifamiklir á íslenskum fjármálamarkaði.
Í þessu samhengi er ástæða til að hvetja stjórnvöld og aðra málsmetandi aðila samfélagsins til að vanda málflutning sinn þegar kemur að umræðunni um banka og fjármálamarkaði. Það er farsælla til framtíðar að umræðan sé málefnaleg og byggð á staðreyndum frekar en sleggjudómum.
Miklar álögur á fjármögnun bankans
Skattaálögur hér á landi á fjármálafyrirtæki hafa farið fram úr því sem skynsamlegt getur talist. Á það sérstaklega við um álögur sem leggjast ekki á tekjur eða afkomu heldur skuldir. Þar er einfaldlega um skatt að ræða sem eykur fjármögnunarkostnað íslenskra banka. Bankaskatturinn svokallaði nemur árlega hátt í 0,4% af skuldum banka. Í ljósi þess að vaxtamunur bankans hefur lækkað frá árinu 2012 má ljóst vera að bankinn hefur hingað til ekki sem neinu nemur fært þessar álögur yfir á sína viðskiptavini. Um tímabundinn skatt er að ræða sem veldur því að bankinn stígur varlega til jarðar hvað þetta varðar.
Sértækar reglur óæskilegar
Því fylgir ábyrgð að starfrækja fjármálafyrirtæki. Við víkjum okkur ekki undan þeirri ábyrgð, við tökum hana alvarlega og höfum á undanförnum árum lagt okkur fram um að byggja upp góðan banka sem sinnir sínu hlutverki af ábyrgð. Við viljum hafa jákvæð áhrif á okkar umhverfi með margvíslegum hætti. Fjármálakerfi eru eitt af grunnkerfum hvers samfélags og er hlutverk fjármálafyrirtækja að miðla fjármagni frá þeim sem leita ávöxtunar á sínar eignir til þeirra sem leita fjármögnunar, hvort sem þeir hyggjast ráðast í stór eða smá verkefni. Því gegna fjármálafyrirtæki mikilvægu hlutverki í efnahagslífi hvers lands.
Eðli málsins samkvæmt lúta fjármálastofnanir um allan heim yfirgripsmiklu regluverki og eftirliti opinberra aðila. Rík áhersla hefur verið á þetta á undanförnum árum á alþjóðavísu. Það er tímanna tákn en við höfum lagt áherslu á að á Íslandi séu alþjóðlegar reglur innleiddar og að íslensk fjármálafyrirtæki þurfi ekki að lúta sértækum reglum á heimamarkaði sem fjármálafyrirtæki í nágrannalöndum okkar gera ekki. Slíkar sérreglur draga úr samkeppnishæfni íslenskra banka og ber að forðast.
Eitt besta ár bankans
Árið 2014 var afar gott ár, ekki síst þegar litið er til afkomu bankans, en arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli var 18,6%. Regluleg starfsemi gekk vel og sækir bankinn fram á öllum sínum helstu mörkuðum. Á árinu höfðu óreglulegir liðir eins og sala bankans á hlut í HB Granda og skráning félagsins á aðallista Nasdaq á Íslandi jákvæð áhrif á afkomu ársins.
Árið 2014 var afar gott ár, ekki síst þegar litið er til afkomu bankans, en arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli var 18,6%.
Eitt af stóru verkefnunum við endurreisn fjármálakerfisins á Íslandi hefur verið að auka hagræði í rekstri, aðlaga fjármálafyrirtækin að nýjum veruleika og búa í haginn fyrir framtíðina. Við hjá Arion banka höfum fækkað útibúum og þrátt fyrir að hafa tekið yfir nokkur innlend fjármálafyrirtæki og samtals á annað hundrað starfsmanna, hefur starfsfólki bankans fækkað.
Metnaðarfull verkefni eru í gangi innan bankans með það að markmiði að auka hagræði enn frekar. Ber þar ekki síst að nefna innleiðingu straumlínustjórnunar sem er verkefni sem hefur verið tekið föstum tökum. Innleiðing hennar hófst árið 2012 og mun ljúka í upphafi árs 2016. Að innleiðingu lokinni tekur við áframhaldandi þróun og einföldun verkferla með það að markmiði að gera stöðugt betur og bæta þjónustu enn frekar við viðskiptavini bankans.
Góður árangur
Sá árangur sem starfsfólk Arion banka hefur náð síðastliðið ár og í raun allt frá stofnun bankans er um margt eftirtektarverður. Arion banki er í dag í fremstu röð í Evrópu þegar kemur að fjárhagslegum styrk. Í lok ársins 2014 var eiginfjárhlutfall bankans 26,3%, þar af eiginfjárhluti A 21,8%, og lausafjárhlutfall 174%.
Hlutfall vandræðalána er komið niður í 4,4%. Það byggir á markmissri vinnu undanfarinna ára við að aðstoða viðskiptavini sem flestir eru í mun betri stöðu í dag en fyrir nokkrum árum. Vel hefur verið staðið að sölu á fyrirtækjum sem bankinn þurfti að taka yfir og hefur þannig náðst að hámarka endurheimtur. Skráning félaga á markað hefur verið okkur hugleikin og höfum við þannig stutt við uppbyggingu hlutabréfamarkaðar á Íslandi. Skráning sjávarútvegsfyrirtækisins HB Granda á árinu 2014 var mikilvægur áfangi í þeirri uppbyggingu. Þannig var árið 2014 jákvætt fyrir hlutabréfamarkaðinn og jókst markaðsvirði hlutabréfa í kauphöll um 30%. Arion banki mun gegna lykilhlutverki við skráningu þriggja félaga í kauphöll á árinu 2015.
Á árinu hefur markvisst verið unnið að því að styrkja innviði bankans, vöruþróun og efla viðskiptasambönd. Sú vinna hefur skilað góðum árangri og skapar traustan grunn fyrir áframhaldandi uppbyggingu. Árangurinn byggir fyrst og fremst á vinnu starfsfólks bankans og góðri samvinnu við viðskiptavini okkar. Vil ég þakka þeim þeirra hlut í árangrinum á árinu.