Góð afkoma af reglulegri starfsemi
Það er ánægjulegt að við náum góðum árangri á öllum okkar helstu mörkuðum, náum okkar markmiðum og gott betur. Þannig er regluleg starfsemi bankans í góðum farvegi. Lögð hefur verið rík áhersla á það undanfarin ár að styrkja tekjustoðir og auka skilvirkni í rekstri bankans með því að auka þjónustu- og vöruúrval sem og styrkja okkar þjónustuleiðir.
Uppgjör bankans fyrir árið 2014 markast einnig af óreglulegum liðum en með jákvæðum hætti. Þar hefur mest áhrif sala á hlutum í HB Granda og vel heppnuð skráning félagsins í kauphöll. Þetta ferli átti sér nokkurn aðdraganda og í góðu samstarfi við aðra eigendur félagsins varð skráning þess á aðallista niðurstaðan, en bankinn hafði lýst sig fylgjandi þeirri leið um nokkurt skeið. Skráning trausts sjávarútvegsfyrirtækis í kauphöll er afar mikilvæg fyrir áframhaldandi uppbyggingu hlutabréfamarkaðar en einnig fyrir atvinnugreinina, félagið sjálft og hluthafa þess.
HÖSKULDUR H. ÓLAFSSON
Bankastjóri
Fjárhagslegur styrkur mikilvægur
Frá stofnun Arion banka hefur fjárhagslegur styrkur verið í öndvegi við mörkun stefnu bankans og hefur hann aukist ár frá ári. Er svo komið að eiginfjárhlutfall bankans er mjög hátt á alþjóðlegan mælikvarða. Eiginfjárhluti A (Tier 1) er 21,8%. Vogunarhlutfall er rúm 15,4%, og sterk lausafjárstaða endurspeglast í lausafjárhlutfalli upp á 174%. Uppfyllir bankinn því þær kröfur sem gerðar eru til hans hvað þessa mikilvægu þætti varðar og gott betur.
Bankinn hefur á liðnum árum lagt ríka áherslu á að auka fjölbreytni í fjármögnun bankans og hefur góður árangur náðst á því sviði. Bankinn hefur gefið út sértryggð skuldabréf, verðtryggð og óverðtryggð, og hóf á árinu útgáfu víxla. Í dag er Arion banki stærsti útgefandi skráðra sértryggðra skuldabréfa á Íslandi. Bankinn gaf út ótryggð skuldabréf í NOK árið 2013. Snemma árs 2014 fékk Arion banki, fyrstur banka á Íslandi, alþjóðlegt lánshæfismat frá Standard & Poor‘s. Lánshæfismatið er BB+ og var horfum breytt úr stöðugum í jákvæðar í október. Lánshæfismatið er þýðingarmikið, einkum fyrir þann hóp fjárfesta sem áhuga hefur á skuldabréfum bankans. Í byrjun marsmánaðar 2015 gaf bankinn út skuldabréf í evrum til breiðs hóps fjárfesta. Skuldabréfið hljóðaði upp á 300 milljónir evra eða um 45 milljarða íslenskra króna og er stærsta erlenda skuldabréfaútgáfa íslensks banka um árabil.
Í byrjun marsmánaðar 2015 gaf bankinn út skuldabréf í evrum til breiðs hóps fjárfesta. Skuldabréfið hljóðaði upp á 300 milljónir evra eða um 45 milljarða íslenskra króna og er stærsta erlenda skuldabréfaútgáfa íslensks banka um árabil.
Vel dreift lánasafn sem eykst að gæðum
Í samræmi við þá stefnu sem mótuð var í upphafi hefur mikil breyting verið gerð á lánasafni bankans. Lán til einstaklinga eru nú um 50% af lánasafni bankans en voru 25% árið 2010. Á undanförnum árum hefur Arion banki tekið yfir tvö stór íbúðalánasöfn, en einnig leitt nýjungar á íbúðalánamarkaði og hefur markaðshlutdeild nýrra lána aukist. Nema íbúðalán nú alls um 42% af lánum til viðskiptavina.
Lánasafn bankans til fyrirtækja er stöðugt þrátt fyrir að nokkuð hafi verið um uppgreiðslur. Þannig bæta ný lán uppgreiðslur sem er ánægjulegt, sérstaklega í ljósi þess að vöxtur hagkerfisins var aðeins um 2% á árinu 2014. Einnig er jákvætt að dreifing lánasafns bankans til fyrirtækja eftir atvinnugreinum er í góðu samræmi við vægi þeirra í efnahagslífinu líkt og stefnt hefur verið að.
Á fyrstu árum bankans fór mikil vinna í að aðstoða viðskiptavini sem glímdu við fjárhagsvanda. Fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja gekk vel og var langt komin strax á árinu 2012. Enn er unnið í þessum málum þó að verulega hafi dregið úr umfangi þeirrar vinnu. Þannig hafa gæði lánasafnsins aukist jafnt og þétt og eru vandræðalán í dag 4,4% af lánasafni bankans. Þetta er mikil breyting frá því fyrir nokkrum árum og til marks um þann mikilvæga árangur sem náðst hefur í þessum efnum. Ein afleiðing þessa er að skuldastaða fyrirtækja og heimila hefur ekki verið lægri í um áratug, sem er mikilvæg forsenda þess að fjárfestingar hér á landi færist í aukana með tilheyrandi hagvexti.
Góður samstarfaðili þegar kemur að stórum fjárfestingarverkefnum
Það er mikilvægt fyrir íslenskt atvinnu- og efnahagslíf að fjárfesting taki betur við sér. Þar geta fjármálafyrirtæki haft jákvæð áhrif og stutt vel við stórhuga fyrirtæki og einstaklinga sem kjósa að fjárfesta á Íslandi. Þrátt fyrir gjaldeyrishöft er margt hagfellt í íslensku efnahagslífi um þessar mundir og því mikilvægt að sæta lagi og huga að frekari uppbyggingu. Á árinu var Arion banki leiðandi þegar kom að stórum fjárfestingum hér á landi. Var bankinn lánveitandi og ráðgefandi í tveimur af stærstu fjárfestingarverkefnum ársins. Annars vegar uppbyggingu kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík og hins vegar fjármögnun hátækniseturs Alvogen í Vatnsmýrinni. Stuðningur við verkefni sem þessi er eitt af mikilvægari hlutverkum fjármálafyrirtækja og því ánægjulegt að hafa verið ráðandi aðili í að gera þessi verkefni að veruleika.
Á árinu var Arion banki leiðandi þegar kom að stórum fjárfestingum hér á landi. Var bankinn lánveitandi og ráðgefandi í tveimur af stærstu fjárfestingarverkefnum ársins.
Örar breytingar á þjónustuleiðum
Miklar og hraðar breytingar eiga sér nú stað í bankaþjónustu, einkum á sviði viðskiptabankaþjónustu. Hið vinsæla Arion banka app fyrir snjallsíma gerir bankann aðgengilegan viðskiptavinum alla daga, allan sólarhringinn og nánast hvar sem er. Breytingarnar nú eru í raun hraðari en þegar netbankinn ruddi sér til rúms fyrir hartnær tveimur áratugum.
Með tilkomu nýrrar tækni og þjónustuleiða skapast mikil tækifæri en jafnframt áskoranir. Tækifæri til að veita betri þjónustu, það er verðmæta þjónustu hraðar, aðgengilegar og með minni tilkostnaði fyrir viðskiptavininn. Áskoranir felast m.a. í því að þjónustuþáttum fjölgar því ekki vilja allir sömu þjónustu. Arion banki er tengslabanki og leggur áherslu á að bjóða marga valkosti. Framboðið er til staðar á meðan eftirspurn er fyrir hendi. Þetta kallar m.a. á skarpari framsetningu verðskrár þar sem markmiðið er að hver og einn standi skil á þeim kostnaði sem fellur til vegna þeirrar þjónustu sem hann nýtir. Í því felst sanngirni. Samhliða er boðið upp á marga valkosti, svo sem öfluga hraðbanka, netbanka, snjallsímaapp og gjaldkeraþjónustu, svo það helsta sé nefnt.
Á aðeins tveimur árum hafa mál þróast þannig að 45% viðskiptavina bankans nýta nú appið reglulega. Arion banki er í fararbroddi á þessu sviði. Á tæpum tveim áratugum hefur notkun á netbanka Arion banka náð til 95% okkar viðskiptavina. Allir viðskiptavinir nýta þjónustu útibúa að einhverju marki. Þannig hefur snertingum viðskiptavina við bankann fjölgað til muna með tilkomu rafrænnar þjónustu. Heimsóknum í útibú fækkar og þjónustan tekur breytingum. Útibúaþjónusta verður þó áfram mikilvægur hluti af þjónustuframboði bankans. Bankinn rekur 23 útibú um allt land á 6 skilgreindum svæðum. Markvisst hefur verið dregið úr miðstýringu og ákvörðunarvaldi hefur verið dreift úr höfuðstöðvum til einstakra svæða og útibúa og þannig nær viðskiptavininum. Styttri boðleiðir leiða til betri bankaþjónustu.
Betri bankaþjónusta
Samhliða breyttu neyslumynstri höfum við breytt áherslum í útibúum okkar. Aðlagað þjónustuna að nútímanum og þörfum viðskiptavina. Á árinu opnuðum við nýtt útibú gegnt höfuðstöðvum bankans í Borgartúni í Reykjavík. Þar kynntum við til leiks nýjar áherslur. Ný kynslóð hraðbanka er í útibúinu þar sem hægt er að framkvæma mun fleiri aðgerðir en áður. Í þessum hraðbönkum geta viðskiptavinir okkar með afar skjótum og einföldum hætti meðal annars lagt inn, tekið út, millifært eða greitt reikninga. Þessi nýja kynslóð hraðbanka er nú komin upp í öllum útibúum okkar á höfuðborgarsvæðinu og í kjarnaútibúum okkar úti á landi. Í útibúunum leggjum við nú einnig aukna áherslu á einstaklingsmiðaða ráðgjöf og þjónustu þegar kemur að stóru og mikilvægu málunum í lífi fólks, eins og sparnaði, íbúðakaupum og lífeyrismálum. Fjöldi vottaðra fjármálaráðgjafa starfar í dag hjá Arion banka þar sem vönduð ráðgjöf er sett á oddinn.
Við viljum mæta viðskiptavinum okkar þar sem þeim hentar best, hvort sem það er í tölvunni heima, í símanum á kaffihúsi eða í sveitinni eða bjóða þá velkomna til okkar í eitt af okkar fjölmörgu útibúum. Allt eftir því hvað þeir kjósa sjálfir.
Hugað að framtíðinni
Við leggjum ekki bara áherslu á nýjungar í fjármálaþjónustu heldur einnig ríka áherslu á að styðja almennt vel við nýsköpun á Íslandi. Það er mikilvægt að huga vel að framtíðinni og framtíðartekjuöflun þjóðarinnar og þess vegna styðjum við með markvissum hætti við framtakssama og hugmyndaríka einstaklinga sem eru að stíga sín fyrstu skref í þeim efnum.
Síðustu þrjú ár höfum við staðið að nýsköpunarsmiðjunni Startup Reykjavík þar sem 10 teymi eru valin til þátttöku úr hópi hundraða umsækjenda. Í 10 vikur yfir sumartímann útvegum við teymunum aðstöðu til að starfa að sínum hugmyndum og kemur fjöldi reyndra einstaklinga úr atvinnulífinu að starfinu sem ráðgjafar. Arion banki fjárfestir í hverju félagi gegn 6% eignarhlut. Reynslan af Startup Reykjavík hefur verið það góð að ákveðið var að setja á laggirnar Startup Energy Reykjavík í samstarfi við orkuiðnaðinn á Íslandi. Hefur Arion banki fjárfest í 7 félögum í gegnum það verkefni, þannig að alls hefur bankinn fjárfest í 37 sprotafyrirtækjum hér á landi á undanförnum árum.
Það er mikilvægt að huga vel að framtíðinni og framtíðartekjuöflun þjóðarinnar og þess vegna styðjum við með markvissum hætti við framtakssama og hugmyndaríka einstaklinga sem eru að stíga sín fyrstu skref í þeim efnum.
Að auki var á árinu 2014 lagður grunnur að fjárfestingu bankans í sprota- og vaxtasjóðnum Eyrir Sprotar, sem sérhæfir sig í fjárfestingum ungra og spennandi félaga. Snemma árs 2015 var svo tilkynnt að bankinn hefur skuldbundið sig til að leggja sjóðnum til allt að einum milljarði króna.
Við ákváðum enn fremur að beita aðferðafræði nýsköpunarsmiðjunnar á okkar eigin starfsemi. Nú á vormánuðum munu 5 teymi sem valin voru úr hópi umsækjenda og skipuð starfsfóki bankans vinna að sínum fersku hugmyndum sem allar eru til þess fallnar að bæta þjónustu við okkar viðskiptavini og auka hagræði í rekstri. Verður virkilega spennandi að fylgjast með okkar fólki vinna að sínum hugmyndum og sjá þær verða að veruleika með þessari aðferðafræði og frjórri, skapandi hugsun.
Alhliða fjármálaþjónusta – öflug dótturfélög
Kjarninn í stefnu Arion banka er að veita alhliða fjármálaþjónustu. Til viðbótar við þá þjónustu sem við veitum fyrirtækjum og einstaklingum á sviði fjárfestinga, sparnaðar og daglegrar umsýslu fjármála á bankinn þrjú dótturfélög sem gegna lykilhlutverki í kjarnastarfsemi bankans. Stefnir er stærsta sjóðastýringarfélag landsins og er hlutverk félagsins að stýra fjármunum í eigu viðskiptavina sinna. OKKAR líf er leiðandi félag á sviði líftrygginga hér á landi og Valitor er leiðandi félag á sviði greiðslulausna og kortaviðskipta. Allt framúrskarandi fyrirtæki á sínu sviði.
Undir lok árs keypti Arion banki 38% hlut Landsbankans í Valitor og á Arion banki í dag 99% í félaginu. Það eru spennandi tímar fram undan hjá Valitor sem er að byggja upp starfsemi í bæði Bretlandi og Danmörku. Grunnurinn að þeirri uppbyggingu er sú mikla þekking sem hefur byggst upp innan félagsins hér á landi. Í Bretlandi er áhersla lögð á innri vöxt en á árinu 2014 jók Valitor umsvif sín og keypti danska félagið AltaPay sem sérhæfir sig í rafrænum viðskiptum og mun gegna lykilhlutverki í uppbygginu Valitor í Danmörku.
Áhersla á gæði og aukna skilvirkni
Árið 2014 var afar hagfellt ár og styrkti bankinn stöðu sína á nær öllum sviðum. Við höldum áfram á þeirri vegferð, eflum enn frekar grunnrekstur bankans og aukum hagræðingu og skilvirkni. Ætla má að á næstu árum muni draga úr áhrifum óreglulegra liða eins og virðisbreytinga og sölu fyrirtækja í eigu bankans. Á undanförnum árum hafa slíkir þættir haft jákvæð áhrif á uppgjör bankans.
Starfsfólk bankans á þakkir skildar fyrir þann góða árangur sem náðist á árinu 2014. Viðskiptavinum okkar þökkum við samstarfið á árinu. Við lögðum grunninn að framtíðarskipulagi okkar þjónustu, með það að markmiði að styrkja ólíkar þjónustuleiðir og mæta okkar viðskiptvinum þar sem þeim hentar. Við munum halda ótrauð áfram á sömu braut og veita betri bankaþjónustu.